Fiskandi formúluaðdáandinn sem elskar Færeyjar Vísindafólkið okkar - Magnús Víðisson

Magnús heldur á glæsilegum afla    Myndir aðsendar
Magnús heldur á glæsilegum afla Myndir aðsendar

Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Magnús Víðisson, aðjúnkt og brautarstjóri við Auðlindadeild, er vísindamanneskja júlímánaðar.

Í Hrísey týnist tíminn

„Ég lít jafnmikið á mig sem Hríseying og Akureyring,“ segir Magnús, og bætir við: „Hrísey er náttúrulega miðbær Akureyrarbæjar, fallegasti staður landsins, og þar týnist tíminn mjög auðveldlega.“ Magnús er yngstur fimm systkina, kom í heiminn árið 1994 og hefur aldrei búið langt frá sjó – og ætlar sér að halda því þannig.

Magnús fór í Menntaskólann á Akureyri á málabraut og brautskráðist þaðan með stúdentspróf árið 2014. „Ég vissi í raun ekki hvað mig langaði að gera. Ég hafði spáð í að fara suður í tungumálanám, en svo heyrði ég af sjávarútvegsfræðinni við HA – og eftir það var ekki aftur snúið.“ Magnús lauk BS gráðu í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri árið 2018 en hluta af náminu tók hann í skiptinámi í Tromsø í Noregi. Þar heillaðist hann svo mjög að hann lauk MS gráðu í sjávarútvegsfræði með áherslu á auðlindastjórnun árið 2020 úti í Noregi. „Líklega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið var að læra utan landsteinanna.“

Magnús með stúdentum í Tromsö

„Í dag er ég feginn því að hafa uppgötvað sjávarútvegsnámið því frá unga aldri, fyrir utan hefðbundinn mótþróa unglingsáranna, hef ég haft áhuga á sjávarútvegi. Ég fór mikið á sjó með afa í Hrísey sem barn, stalst á bryggjur hist og her um Akureyri til að dorga og fór á minn fyrsta túr á togaranum Kaldbak níu ára gamall með pabba þar sem hann var stýrimaður og seinna skipstjóri,“ útskýrir Magnús og heldur því fram að ekki sé til nein betri dægrastytting en fiskveiðar og því fylgi afar móðins núvitund.

Mikilvægt að stúdentar upplifi virðiskeðjuna

Magnús er í dag aðjúnkt og brautarstjóri við Auðlindadeild HA. „Ég hef umsjón með námskeiðum um fiskifræði og alþjóðalegan sjávarútveg ásamt því að kenna líka í námskeiðum um sjávarútveg hér heima, veiðitækni, sjávarlíffræði og fleira,“ segir hann og raunin er sú að ef námskeið hefur eitthvað með fisk að gera, þá er Magnús líklega með puttana í því.

Hann segir allra skemmtilegast við kennsluna vera hvað það eru upp til hópa skemmtilegir og samrýmdir hópar af stúdentum sem sækja námið. Hann gerir sér grein fyrir því að það sé ekki sjálfgefið og að mikið sé lagt upp úr því að kennslan sé gagnleg og gagnvirk. „Við leggjum mikið upp úr verklegum æfingum. Stúdentar kryfja fiska, safna sýnum á sjó og heimsækja bæði rannsóknarbát og togara niðri á bryggju. Við viljum að stúdentar upplifi alla virðiskeðjuna. Það er allt annað að lesa um fisk á glærum eða að fá að sjá hann með eigin augum og handleika hann.“ Síðustu ár hefur hann einnig farið með stúdenta í vettvangsferðir erlendis, meðal annars

til Noregs þar sem hann sjálfur var í námi. „Það hefur verið ótrúlega gaman – og ég vona að ég fái að gera það oftar.“

Þekkingunni miðlað víðsvegar

Magnús hefur í sínum fræðistörfum aðallega horft til breytinga á aflatölum og þróun fiskveiðistjórnunar á Íslandi – „Það er alltaf á milli tannanna á fólki,“ eins og hann orðar það. „Ég vonast til að gefa meira út varðandi þetta í framtíðinni en í dag miðla ég aðallega til fólks á ráðstefnum og þegar við fáum til okkar hópa sem hafa með þessi málefni að gera.“

Hann er líka viðloðandi GRÓ Sjávarútvegsskólann ásamt kollega sínum, Hreiðari Þór Valtýssyni, og hefur síðan 2021 tekið á móti nemendum víðs vegar að úr heiminum sem koma í gegnum UNESCO. „Þau eru hér í fimm mánuði, fræðast um sjávarútveg og fara svo heim til að nýta þekkinguna í sínu samfélagi. Það er magnað að fylgjast með því.“

En hvað er brýnast að rannsaka á þessu sviði? „Áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið í hafinu. Hafið er auðlind, en það þarf ekki mikið til svo að við sjáum miklar breytingar. Hvort það verði tækifæri eða áskoranir – það verður tíminn að leiða í ljós.“

Missir ekki af keppni

Fyrir utan fisk og fræðimennsku má gjarnan finna Magnús við áhorf á Formúlu 1 eða að skipuleggja næsta ferðalag. „Ég var líka í aðalstjórn Þórs í nokkur ár sem fulltrúi unga fólksins og var sjálfboðaliði á vellinum í 13 sumur, svo missi ég ekki af keppni í formúlunni svo áhuginn á íþróttum almennt er talsverður.“

Að þessu sögðu kveðjum við Magnús sem er líklegast að fara að æfa sig í pílu eða skipuleggja ferðalag til Færeyja en þangað hefur hann farið fimm sinnum á síðustu þremur árum.

Magnús níu ára á sjó

 

Nýjast