Ekki eru allir sáttir við að Torfunefsbryggju á Akureyri, sem skemmdist töluvert í slæmu veðri milli jóla og nýárs, verði ekki haldið við eins og fram kom í Vikudegi í síðustu viku. Hollvinir bátsins Húna II, sem notaður er til skemmtisiglinga á Pollinum, telja að það muni þýða endalok þess konar ferðaþjónustu ef bryggjan verður lögð af.
„Ég held að ef ekkert verði að gert í sambandi við þessi hafnarmannvirki sé verið að kippa grundvellinum undan því að hægt sé að byggja upp ferðamennsku í kringum Húna. Ferðamennska verður ekki rekin frá Fiskihöfninni á Oddeyrartanga,” sagði Þorsteinn Pétursson, einn af Hollvinum Húna.
Aðspurður hvort félagið myndi beita sér fyrir breytingum á skipulaginu og að bryggjunni verði haldið við sagði Þorsteinn. „Við erum fullir af vilja til þess að þarna verði fundin besta lausnin á málum og það sem allra fyrst. Í fyrra sumar var til dæmis gerður út annar bátur frá bryggjunni, lítill bátur sem tók um 10 manns með sér í sjóstangveiðar. Þarna var að myndast mjög skemmtileg bryggjumenning en ef ekkert á að gerast mun þetta leggjast af,” sagði Þorsteinn.