AkureyrarAkademían hefur vaxið hratt frá stofnun félagsins vorið 2006. Í Húsmæðraskólanum geta félagar leigt sér vinnuaðstöðu og haldnir eru fyrirlestrar og málþing fyrir almenning. Fimmtudagsfyrirlestrarnir sem haldnir hafa verið annan fimmtudag hvers mánaðar í vetur hafa verið vel sóttir og haustþingið um Sauðkindina sóttu yfir 100 manns. Ellefu fræðimenn nýta nú aðstöðuna á 1. hæðinni sem er fullnýtt, en verið er að taka í notkun aukið rými í kjallara og á efri hæð. Í nóvember fékk AkureyrarAkademían einnig til afnota stóran og fallegan sal sem nýtist vel til fundarhalda og fyrirlestra. Félagar eru nú um 60 og vill stjórnin gjarna leggja aukna áherslu á að virkja þann mikla fjölda og ekki síst að ná til sjálfstætt starfandi fræðafólks af öllu Norðurlandi, en flestir núverandi félagar eru með búsetu á Akureyri og nágrenni. Nýir félagar eru velkomnir.