Fáránlegt að setja svo fallegt svæði undir iðnaðarhverfi

„Ég veit ekki hvert við flytjum þar sem þetta er svo nýbúið að gerast en okkur þykir að sjálfsögðu mjög leitt að þurfa að flytja úr þessu húsi," sagði Kristján Þórðarson, ábúandi á Ytra-Krossanesi til 18 ára. Hann og kona hans, Svanhildur Leósdóttir, þurfa að flytja úr húsinu innan sex mánaða þar sem Akureyrarbær hefur sagt upp leigusamningi við þau frá og með 1. febrúar nk. Ástæða uppsagnarinnar er að samkvæmt gildandi aðalskipulagi Akureyrar fyrir árin 2005-2018 er gert ráð fyrir því að svæðið við Ytra-Krossanes verði nýtt sem iðnaðar- og athafnasvæði. Kristján sagði að þetta komi sér illa fyrir hann og ekki síður syni hans sem hafa verið með aðstöðu til bílaviðgerða á staðnum en missa nú aðstöðu sína. Þá sagði hann að sér þætti fáránlegt að svona fallegt svæði fari undir iðnaðarhverfi, þarna væri mun betra að hafa íbúabyggð í fallegu umhverfi.

Nýjast