Fækkun héraðsdómstóla mun ekki skila tilætluðum árangri

Ólafur Ólafsson dómstjóri við Héraðsdóm Norðurlands eystra telur að fækkun héraðsdómstóla úr átta í einn muni ekki skila tilætluðum árangri. Það kemur Ólafi hins vegar ekki á óvart að fyrirhugað sé að hinn nýi  sameinaði héraðsdómur verði staðsettur í Reykjavík. Markmiðið með því að fækka héraðsdómstólum mun vera tvíþætt.  Annars vegar að draga úr kostnaði og  hins vegar að mæta því aukna álagi sem þegar hefur orðið  hjá dómstólum í kjölfar efnhagshrunsins sl. haust.  

„Það var framfaraspor stigið þegar aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði komst á árið 1992 og  þessir átta dómstólar voru settir á stofn. Nú er talað um að fækka dómstólum í héraði niður í einn. Það kemur mér reyndar ekki á óvart að hann skuli eiga að vera staðsettur í Reykjavík, það hefur því miður verið þróunin hjá stofnunum ríkisins. Ég geri hins vegar athugasemdir við það að landsbyggðin sé gerð að útibúamiðstöð.  Það mun þýða fækkun starfsfólks og skerðingu á þjónustu.  Þá tel ég hætta á að lögmönnum á landsbyggðinni muni fækka og þar með muni sú þjónusta sem þeir veita skerðast.  Einnig tel ég að staðarþekking dómara og lögmanns skipti máli við úrlausn mála."

Ólafur segir að þetta séu ekki aðeins sín orð, heldur orð sem voru notuð þegar aðskilnaður dómsvalds og framkvæmdavalds varð að veruleika árið 1992. Ólafur segir að tilkynningu dómsmálaráðherra í júli sl. komi réttilega fram að mikill vandi sé hér á landi vegna efnahagshrunsins. „Það þarf að spara og jafna álag og það er virðingarvert. Varðandi sparnaðinn þá er það skylda forstöðumanna stofnana að fara vel með skattpeninga almennings. Ég tel að það hafi reyndar verið gert hér og hjá dómstólunum öllum, það sýna tölur. Um 96-98% af útgjöldum dómstólanna eru í formi launa og kostnaðar við húsnæði. Ég spyr, er hægt að skera innar en að beini, ég spyr líka eru aðrar stofnanir t.d. hjá framkvæmdavaldinu, hjá fjármálaráðherra, hjá ráðherra dómstóla nú eða hjá Alþingi, sem eru með slíkt aðhald í rekstri og með slíkar tölur sem ég nefndi? Varðandi hina röksemdina, að jafna álag milli dómara og dómstóla þá er rétt að hafa í huga að málafjöldi hefur farið vaxandi mörg undanfarin ár. Og vegna þessa lagði fyrrverandi dómsmálaráðherra fram frumvarp í tvígang, fyrir fáum árum, um að fjölga héraðsdómurum úr 38 í 40. Málið náði ekki í gegn á Alþingi en það var enginn ágreiningur um að þörf væri á þessari fjölgun.

Fleiri verkefni til dómstóla

Ólafur segir að auk málafjöldans hafi fleiri verkefni  með löggjöf verið sett á herðar dómstóla.  Nefnir hann í því sambandi skýrslutökur af börnum og ungmennum en einnig vandasöm barnaverndarmál. Þá sé það algengara nú en áður að  í sakamálum sé fjölskipaðir dómar.  Allt taki þetta tíma. „Til viðbótar þessu varð títtnefnt efnahagshrun sl. haust  og enn fjölgar málum, ekki síst einkamálum.  Það er þó misjafnt hvar þessi fjölgun er og fer m.a. eftir því hvar uppgangurinn var.  Hann var eins og alkunnugt er mun meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.   Af þeim sökum tel ég nauðsynlegt og reyndar mjög brýnt að fjölga dómurum í Reykjavík og á Reykjanesi, enda er að skapast vandræðaástand þar. Ég vek athygli á því að Alþingi og ráðherrar hafa talið sér skylt að styrkja ákæruvald og lögreglu þannig að vel sé staðið að rannsókn efnahagsbrotamála.   Hefur m.a. verið farið að erlendri ráðgjöf að þessu leyti.  Saksóknurum hefur verið fjölgað um eina 5 með tilheyrandi starfsfólki, lögfræðingum, endurskoðendum og lögreglumönnum.   Ég geri ráð fyrir að einhver  sakamál komi út úr þessu.  Þau verða væntanlega flókin og umfangsmikil en hvar munu þau enda,  hjá dómstólunum væntanlega.  Ég ætla að vona að dómstólarnir verði almennilega í stakk búnir til að taka við þessum málum og ég tel að vegna þessa sé brýnt að dómskerfið verði styrkt.  Ég vil líka benda á að nú þegar hafa mál sem tengjast efnhagshruninu komið inn á borð dómstólanna, til viðbótar hinum almennu einkamálum." Fjöldi fólks hefur lent í fjárhagsvandræðum og þurft að fara í greiðsluaðlögum.  Eru nú þegar komin upp 11 slík mál hér við dómstólinn, en þau eru mun fleiri á höfuðborgarsvæðinu."

Sporin hræða

Ólafur segir að með því að skera af dómsstjóra á landsbyggðinni sé vissulega hægt að spara.  Gert sé hins vegar ráð fyrir að í stað þeirra  komi útibússtjórar og  það þýði á móti aukinn kostnað. „Þá er líka gert ráð fyrir því að skipa varadómsstjóra við hinn nýja sameinaða dómstól í Reykjavík.  Það er ný staða með tilheyrandi kostnaði. Ég held líka að ef hið nýja fyrirkomulag kemst á muni ferða- og uppihaldskostnaður dómara úr Reykjavík verði mun meiri en nú er. Ég hef því miklar efasemdir um sá sparnaður verði sem að er stefnt.  Þá hræða sporin við fyrri sameiningar ríkisstofnana.

Það má hins vegar velta fyrir sér öðrum leiðum og hvernig aðrar þjóðir hafa farið að, t.d Danir.  Ég tel t.d. vel hugsanlegt að fækka dómstólum í 3-5 og nefni t.d. að á á höfuborgarsvæðinu eru þeir tveir og þrír ef Vesturland er talið með.  Þá mætti fækka dómþinghám. En með þessu er viðbúið að  kostnaður færist til og lendi t.d. að einhverju leyti á almenningi.  Stjórnmálastéttin verður að hugleiða það. Mér finnst það reyndar einnar messu virði að  þingmenn hugleiði vel  hvernig þessu verði best fyrir komið í framtíðinni.  Að þeir og aðrir hlusti t.d. á aðra en þá sem lengi hafa stefnt að sameiningu.  Ég vona með öðrum orðum að ekki verði hrapað að  niðurstöðu, sem erfitt verður að leiðrétta síðar meir," sagði Ólafur.

Nýjast