Umræða um menntakerfið hefur verið hávær undanfarið og ekki síst um námsmat. Margir hafa t.d. gagnrýnt skort á samræmdu mati og notkun bókstafa í matskerfinu. Þetta er mikilvæg umræða, sem á sannarlega rétt á sér, en er þetta einföldun á flóknari vanda?
Liggur vandamálið fyrst og fremst í skólakerfinu eða þarf samfélagið sjálft að líta í eigin barm? Höfum við leitað álits kennara um hvaða breytingar þeir telja að hafi átt sér stað? Vitum við hvaða áskoranir þeir standa frammi fyrir? Er það skortur á aga, meðvirkni foreldra, minnkandi lestur á heimilum og sívaxandi áhrif tækni og hraða í samfélaginu á börn? Liggur vandamálið í minni samveru milli kynslóða? Fjölbreyttari nemendahópi? Er aukið ofbeldi meðal barna eða vanlíðan ungs fólks vandamálið? Við þurfum að huga að rót vandans.
Við þurfum að ræða opinskátt hvers vegna lestri og lesskilningi barna hefur hrakað. Við verðum að spyrja okkur hvað það er í tækninni og samfélagsgerðinni sem veldur og hvernig við sem samfélag getum brugðist við. Við þurfum að styðja við börnin okkar og bregðast við með hagsmuni þeirra að leiðarljósi – því lestur er og verður grunnur alls náms.
Getur samfélagssáttmáli um samfélagsmiðla- og skjánotkun barna haft áhrif á lestur og lesskilning barna?
Sveitarfélagið stendur nú frammi fyrir endurskoðun á menntastefnu Akureyrarbæjar. Þar er brýnt að hlustað sé á kennara og tekið mið af þeirra reynslu og upplifun. Um leið verðum við að horfa raunsætt á breytta samfélagsgerð og virkja heimilin með okkur.
Það var samþykkt í apríl í bæjarstjórn að hefja vinnu við gerð samfélagssáttmála um sameiginleg viðmið íbúa um samfélagsmiðla- og skjánotkun barna. Því miður hefur sú vinna ekki enn hafist en ég tel mjög brýnt að hún verði sett í forgang en þar ætti okkur einmitt að gefast tækifæri til að ræða þessar áskoranir við heimilin.
Til upprifjunar á hugmyndinni um samfélagssáttmála læt ég hér fylgja grein sem ég skrifaði þegar samþykkt var að hefja þá vinnu í bæjarstjórn:
Samfélagssáttmáli íbúa um samfélagsmiðlanotkun og skjátíma barna
Sunna Hlín Jóhannesdóttir
Oddviti Framsóknar á Akureyri