Er KEA að fara út í beinan atvinnurekstur á ný?

Hannes Karlsson stjórnarformaður KEA segir að mörg fjárfestingarfélög hafi þróast í þá átt að vera með tilteknar kjarnaeignir í sínu eignasafni þ.e. eru með beinan rekstur innan sinna vébanda.  Þetta dragi úr sveiflum í starfsemi þeirra  og myndi ákveðna kjölfestu. Þetta kom fram í máli Hannesar á aðalfundi KEA, þar sem hann flutti skýrslu stjórnar. "Það er mikilvægt að við í KEA höldum áfram að yfirfara okkar viðskiptalíkan, meðal annars m.t.t. þessa og ekki síst vegna þeirrar grundvallarhugsunar sem liggur að baki  félagsforminu, sem er jú þátttakan," sagði Hannes. Hann sagði að vissulega myndu mörg fyrirtæki  vilja vera í sporum  KEA í dag.  Félagið sé með góðar eignir, sterka eiginfjárstöðu  og nánast skuldlaust. "Þau tækifæri sem  staða þess býður uppá verður að nýta vel og af skynsemi; þar veldur hver á heldur.  Framtíð félagsins  byggir m.a. á því hvernig til tekst með næstu skref og ég fæ ekki annað séð en okkur muni farnast vel.  Við erum í stakk búin til þess." Hannes sagði að fjárfestingarstefna félagsins byggi áfram á því meginmarkmiði að varðveita skuli höfuðstól félagsins eins og kostur er en það feli í sér tiltekinn aga í vinnubrögðum við fjárfestingar.  "Eins og við þekkjum, er félagsform KEA með þeim hætti að ekki verður sótt nýtt fjármagn til eigenda þess ef illa árar." 

Nýjast