Stjórn Eyþings leggst eindregið gegn þeim hluta frumvarps til laga um tekjuskatt, sem snýr að skattaumsýslu stórra og umsvifamikilla fyrirtækja.
Samkvæmt frumvarpinu á sú umsýsla öll að fara fram í Reykjavíkurumdæmi, í sérhæfðri stjórnsýslueiningu.
Í frumvarpinu felst það sjónarmið að ekki sé hægt að byggja upp í öðrum umdæmum þá
sérfræðiþekkingu og sérhæfni sem þarf til að sinna slíkum fyrirtækjum. Þessu sjónarmiði andmælir stjórn
Eyþings harðlega og telur ekki vafa á að hægt er að byggja upp þessa þekkingu við skattstofur annars staðar á landinu, t.d. skattstofu
Norðurlandsumdæmis eystra þar sem stjórnin þekkir best til. Stjórn Eyþings harmar að enn á ný skuli stjórnvöld ætla
að ganga gegn eigin stefnu með því að auka umsvif ríkisins í höfuðborginni. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í
gangi sé sérstök athugun á því hvernig styrkja megi starfsemi einstakra skattstofa úti á landsbyggðinni, til að mynda með flutningi
annarra verkefna til þeirra, m.a. í tengslum við þá breytingu sem leiðir af frumvarpinu. Slík tilfærsla einhverra verkefna er léttvæg
í samanburði við lögfestingu verkefna eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Nægir í því sambandi að vísa til upplýsinga um
fjölgun starfa ríkisins á undanförnum árum.