Engin gild leyfi til efnistöku í Eyjafjarðará

Engin gild leyfi eru til efnistöku í Eyjafjarðará. Nú er í gangi athugun á því hver áhrif efnistöku eru á lífríki árinnar og er niðurstöðu að vænta fljótlega að sögn Arnars Árnasonar oddvita í Eyjafjarðarsveit. Hann nefnir að í lögum sem nú eru í gildi sé gert ráð fyrir að fyrir þurfi að liggja umsögn frá Landbúnaðarstofnun ætli menn sér að taka efni úr ánni. „Það eru skiptar skoðanir hér í sveitinni um hver áhrif efnistöku eru á lífríkið, því fórum við út í að láta gera faglega athugun á þessu," segir hann. Einkum horfa menn til þess hver áhrif efnistökunnar eru á silungsveiði í Eyjafjarðará og eru á því skiptar skoðanir. Telja sumir að efnistakan hafi umtalsverð áhrif þar á en aðrir ekki. Arnar segir að 1. júlí í sumar taki gildi ný lög þar sem gert sé ráð fyrir að sveitarstjórnir gefi út framkvæmdaleyfi á alla efnistöku úr námum. Því stendur til að sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar sendi út bréf til þeirra sem málið varðar og hvetji til þess að menn afli sér slíkra leyfa. „Menn vilja auðvitað leitast við að vernda ána sem framast er kostur, en nú bíðum við eftir áliti sérfræðinga og munum taka mið af því," segir Arnar.

Nýjast