Elstu börnin á leikskólum Akureyrar heimsóttu slökkviliðsmenn á Akureyri í morgun, alls um 300 börn auk starfsfólks og var mikið
líf og fjör á athafnasvæði slökkviliðsins.
Þessi barnahópur hafði tekið þátt í verkefninu um Loga og Glóð í vetur, þar sem slökkviliðsmenn heimsóttu
leikskóla bæjarins og fóru yfir eldvarnir, fræddu börnin um staðsetningu slökkvitækja í skólunum, útgönguleiðir og
sitthvað fleira. Þorbjörn Haraldsson slökkviliðsstjóri sagði að börnin hefðu staðið sig mjög vel í þessu verkefni og að
ákveðið hefði verið að bjóða þeim í heimsókn á stöðina í viðurkenningarskyni. Hann sagði að
slökkviliðið hefði notið stuðnings SBA Norðurleiðar við flutning barnanna á staðinn og heim aftur í morgun. Þorbjörn sagði að
þessi aldurshópur hefði jafnframt starfað sem aðstoðarmenn slökkviliðsins í sínum leikskólum og fylgst reglulega með því
að allt sem snéri að eldvörnum væri í lagi. Þorbjörn sagði að einnig hefði verið farið í rýmingaræfingar í
sumum skólunum. Á athafnasvæði slökkviliðsins í morgun fengu börnin að spreyta sig í þrautabraut, þar sem ýmislegt tengt
starfi slökkviliðsmanna kom við sögu. Þau fengu m.a. að sprauta vatni út í loftið, hlaupa undir vatnsbunu og kunnu svo sannarlega vel að meta
það. Einnig var þeim boðið upp á grillaðar pyslur og eitthvað að drekka með. Sum barnanna voru orðin vel blaut þegar þau héldu
í leikskólanna á ný en öll skemmtu þau sér hið besta.
Slökkviliðsmenn á Akureyri heimsóttu í vetur elstu börnin í öllum leikskólum á starfssvæði slökkviliðsins, alls um
350 börn í 18 leikskólum. Þessar heimsóknir voru hluti af samstarfi elstu barnanna í leikskólunum, Slökkviliðs Akureyrar og
Eignarhaldsfélags Brunabótafélags Íslands. Fram kemur á vefsíðu slökkviliðsins að hver heimsókn hafi tekið um klukkustund. Alls
staðar hafi verið mjög vel tekið á móti slökkviliðsmönnunum og sýndu börnin þessu verkefni mikinn áhuga. Farið var yfir
verkefnið með börnunum í heild sinni. Einnig var þeim var kennt hvert þau eigi að leita eftir aðstoð ef eitthvað kemur upp á þ.e.
að hringja í 112 og hvernig þau eigi að bregðast við ef eldur kemur upp. Börnin fengu að sjá hvernig slökkviliðsmaður
lítur út þegar að hann er klæddur í fullan skrúða, þ.e. í slökkvigalla og með reykköfunartæki á
sér. Eftir að hafa rætt við börnin inni þá var haldið út og slökkviliðsbifreið skoðuð. Öll börnin fengu
afhentar möppur með verkefnum og viðurkenningarskjal um þátttöku þeirra í þessu verkefni. Tveir starfsmenn slökkviliðsins, einn
starfsmaður eldvarnareftirlits og einn slökkviliðsmaður, fóru í þessar heimsóknir í hvert skipti.