Háskólaráð samþykkti einnig að nú þegar verði hafið endurmat á skipulagi og forsendum námsins. Vegna þessa verður að endurskoða starfsmannamál í tölvunarfræði í heild, þar sem framtíð núverandi náms er óviss og ekki er þörf fyrir alla kennara í tölvunarfræði til að ljúka kennslu nemenda næstu tvo vetur. Í dag var öllum kennurum í tölvunarfræði sagt upp störfum en þeir eru sex talsins. Hluta starfsmanna verður gefin kostur á endurráðningu til að ljúka kennslu núverandi nemenda. Í framhaldinu verður unnið að því að breyta tilhögun námsins og bjóða upp á það í formi fjarnáms en það samræmist vel áætlun Háskólans á Akureyri um að efla fjarnám við stofnunina.
Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, harmar að til þessarar ákvörðunar hafi þurft að koma en segir að Háskólinn hafi verið nauðbeygður til að grípa til þessara aðgerða vegna þess hve fáir nemendur stundi þetta nám.