Einbeittur vilji fjölmiðla að koma höggi á Framsóknarflokkinn

Stjórn Félags ungra Framsóknarmanna á Akureyri og nágrenni hefur sent frá ályktun þar sem lýst er yfir mikilli undrun á framgöngu fjölmiðla í hinu svokallaða fatakaupamáli, þar sem keypt voru föt fyrir frambjóðendur Framsóknarflokksins í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Málið hafi allt verið blásið upp og virðist það vera einbeittur vilji fjölmiðla að koma höggi á Framsóknarflokkinn. Hreinni furðu hlýtur að sæta að slíkt mál fái þvílíka umfjöllun í aðalfréttatímum sjónvarpsstöðvanna, jafnvel álíka mikla umfjöllun og myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Málið er minniháttar og ein milljón í kosningabaráttu sem kostar tugi milljóna getur varla verið verð slíkrar umfjöllunar. Fatnaðurinn sem um ræðir var notaður í þágu flokksins enda tíðkast í kosningabaráttu að frambjóðendur komi vel fyrir.  Algengt er orðið að stílistar komi við sögu í kosningum og má telja víst að slík þjónusta sé greidd úr kosningasjóðum flokkanna ásamt t.d. kynningarefni efstu manna á listum.  Hver er munurinn á því hvort um er að ræða stílista, kynningarefni eða fatnað?  Í öllum tilfellum er tilgangurinn að skapa góða ímynd frambjóðenda.  Það skiptir einfaldlega ekki máli í hvað kosningasjóðir fara svo lengi sem fjármunirnir eru nýttir í þágu viðkomandi flokks í aðdraganda kosninga, segir ennfremur í ályktuninni.

Nýjast