Eimskip gefur öllum sjö ára börnum reiðhjólahjálma

Eimskipafélag Íslands hefur efnt til kynningar- og fræðsluátaks á Íslandi og í Færeyjum um mikilvægi notkunar reiðhjólahjálma barna og unglinga. Af því tilefni gefur Eimskip öllum börnum á sjöunda aldursári á Íslandi reiðhjólahjálma, í samstarfi við Kíwanis. Fyrstu bekkingum Ártúnsskóla verða afhendir fyrstu hjálmarnir í höfuðstöðvum Eimskips í dag. Á næstu tveimur vikum munu Kiwanisfélagar heimsækja alla grunnskóla landsins og afhenda börnum hjálma og ræða við þau um umferðaröryggi og notkun hjálmanna. Meðfylgjandi eru myndir frá afhendingu hjálmanna fyrr í dag. Guðmundur P. Davíðsson, forstjóri Eimskips á Íslandi og Gylfi Ingvarsson, umdæmisstjóri Kiwanis afhentu Stellu Bjarkadóttur og Arnari Jóni Guðmundssyni í 1. bekk í Ártúnsskóla fyrstu hjálmana. Eimskip og Kíwanis hafa undanfarin fimm ár átt mjög farsælt samstarf og hafa í sameiningu gefið og dreift rúmlega 23.000 hjálmum til grunnskólanema vítt og breitt um landið. Markmið samstarfsins hefur verið að draga verulega úr slysatíðni barna í umferðinni, með öflugu fræðslustarfi um notkun hjálma, sem kostaðir hafa verið af Eimskip. Eimskip og Kiwanis framlengdu nýlega samning sinn til næstu þriggja ára. Frá því að samstarf félaganna hófst hefur hjálmanotkun barna og unglinga aukist verulega og  almennt forvarnarstarf hefur einnig aukið þekkingu barna á notkun hjálmanna en afar mikilvægt er að þeir séu rétt stilltir og að börn fái góðar leiðbeiningar um notkun þeirra. Fræðslustarf í skólum er í góðu samstarfi við skólahjúkrunarfræðinga og með faglegum stuðningi Forvarnarhúss.

Eimskip, Umferðarstofa og Reykjavíkurborg hafa gert með sér samkomulag um kynningarátak um land allt undir nafninu „Gott á haus". Á næstu 4-5 vikum verða blaða- og umhverfisauglýsingar átaksins sýnilegar,  þar sem þjóðþekktir einstaklingar sjást á hvolfi eða með öðrum orðum "á haus" með hjálm á höfði. Markmið átaksins er fyrst og fremst að efla vitund fólks fyrir mikilvægi þess að nota reiðhjólahjálma og þá ekki hvað síst meðal barna og unglinga.

Nýjast