12. febrúar, 2008 - 10:16
Aðfararnótt laugardagsins gerði aftaka veður á Hjalteyri og fauk mestallt dekk gömlu bryggjunnar upp á land eins og sést á myndinni hér til
hliðar, sem Axel Grettisson oddviti Arnarneshrepps tók. Einnig urðu miklar skemmdir á sjóvarnargörðum á Hjalteyri. Axel sagði að sjór
hefði flætt á land og náð langt upp á húsveggi, m.a. þar sem Fiskeldi Eyjafjarðar er til húsa en að ekki hafi orðið tjón
þar eða á öðru húsnæði vegna þessa. Hann sagði að gríðarlegt magn af spýtnabraki hefði skolað á land og
ættu heimamenn mikið hreinsunarstarf fyrir höndum.
Ekki hefur verið almennileg tenging á milli lands og gömlu bryggjunnar á Hjalteyri en til stendur að byggja brú þar á milli í sumar, þannig
gestir og gangandi geti farið þangað út, m.a. til að dorga. Axel sagði að til stæði að nota um fjórðung af dekki bryggjunnar í
þeirri uppbyggingu og hefði sá hluti sloppið hvað best í óveðrinu um helgina. Hann gerir sér því vonir um að menn geti haldið
sínu striki, þrátt fyrir þau ósköp sem dundu yfir um helgina.