Bóndadagur og fyrsti dagur í þorra á morgun

Bóndadagurinn er á morgun og jafnframt fyrsti dagur í þorra. Næstu vikurnar munu landsmenn rífa í sig þorramat af miklum móð, svona rétt eftir að hafa jafnað sig eftir jólasteikurnar. Lúðvík Ríkarð Jónsson hefur verkað hákarl á Akureyri í um áratug ásamt Ríkarð syni sínum, sem býr í Ólafsfirði. Þeir eru með aðstöðu norðan við Ytra-Krossanes og þar hitti blaðamaður Lúðvík í vikunni. Hann sagði að hákarl nyti sífellt meiri vinsælda og að eftirspurnin væri töluvert meiri en framboð. Lúðvík sagði að það hefði færst í vöxt að hákarl væri borðaður árið um kring og að fólk á öllum aldri fengi sér bita. Hákarlinn sem þeir feðgar verka fá þeir af togurum og einnig veiða þeir sjálfir þessa frekar óhugnanlegu skepnu. Lúðvík sagði að yngri hákarlinn verkaðist betur og hann sagði að eins tonns skepna gæfi af sér rúm 200 kg af verkuðum hákarli.

Nýjast