Blóðsöfnunardeild Blóðbankans fer reglulega í blóðsöfnunarferðir til að auðvelda blóðgjöfum að gefa blóð og þessa dagana er blóðbíllinn staddur á Norðurlandi. Blóðbíllinn var á bílastæðinu við Glerártorg á Akureyri í dag.
Þar var Guðrún Hildur Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur að taka blóð úr Böðvari Kristjánssyni þegar ljósmyndari Vikudags var þar á ferð. Bíllinn kom frá Húsavík til Akureyrar en næsti viðkomustaður er Sauðárkrókur. Til að mæta þörfum samfélagsins, þarf Blóðbankinn um 16.000 blóðgjafa á ári eða 70 blóðgjafa á dag. Haft er samband við 8.000 -10.000 virka blóðgjafa á ári hverju og gefa þeir u.þ.b. 15.000 blóðgjafir, segir á vef Blóðbankans. Traust og örugg blóðgjöf byggir á heilbrigðum blóðgjöfum. Gott heilsufar er því forsenda blóðgjafar og mikilvægt að kynna sér reglur sem gilda varðandi blóðgjafir. Ef þú ert á aldrinum 18 - 60 ára, yfir 50 kg., heilsuhraust/ur og lyfjalaus getur þú gerst blóðgjafi. Virkir blóðgjafar geta gefið blóð til 65 ára aldurs. Karlmenn mega gefa blóð á 3 mánaða fresti, konur á 4 mánaða fresti.