Beinbrot tíð í hálkunni á Akureyri

Mjög mikið hefur verið um beinbrot nú í hálkutíð undanfarinna vikna og líður vart sá dagur að ekki komi tveir til þrír illa brotnir að leita sér aðstoðar á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þorvaldur Ingvarsson framkvæmdastjóri lækninga segir að fara þurfi mörg ár aftur í tímann til að rifja upp svo slæman kafla og nú hefur gengið yfir bæjarbúa. Mjaðmagrindar-, úlnliðs- og ökklabrot eru umtalsvert fleiri það sem af er ári en vant er og má rekja þau fyrst og fremst til þess að fólk hefur hrasað á hálu svelli. „Þetta er mun verri staða en við höfum séð mörg undanfarin ár," segir Þorvaldur. Hann segir að auk þess sem fólk þurfi að hafa varann á í þessari tíð, þurfi að skoða hálkuvarnir bæjarins. „Það er augljóslega ekki verið að nota rétta efnið til hálkuvarna," segir hann, en það efni sem borið er á götur og gangstíga sé eins konar leir sem geri ekkert gagn. Jafnvel geri leirinn ísinn enn hálli, „það verður að nota grófa möl, annað dugar ekki," segir Þorvaldur, en kvaðst hafa heyrt að slík möl væri ekki til í landinu.

Nýjast