Beðið eftir úrskurði um svæði sex

Von er á úrskurði innan skamms í þjóðlendumálum er varða svæði 6 sem svo er nefnt, á Norðausturlandi. „Það hlýtur að falla úrskurður í málinu á næstunni, við bíðum spennt," segir Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi og formaður Landssamtaka Landeigenda. Samtökin hafa unnið að því að undanförnu að fá lögum um þjóðlendur breytt og hafa kynnt þingmönnum og ráðherrum hugmyndir sínar. „Það kemur í ljós í lok janúar hvort breytingatillögur sem við höfum lagt til verði lagðar fram í þinginu sem þingmannafrumvarp eða þá í nafni minnihlutans," segir Guðný. Hún nefnir að athygli hafi vakið að ríkið hafi ekki áfrýjað svonefndum Smjörfjalladómi nýverið, en Óbyggðanefnd hafi dæmt það eignarland þó svo ekki væri tekið fram í landamerkjalýsingu að landið næði upp á efsta fjallatopp. „Það gefur manni vissulega vonir um að ríkið sé að vakna í málinu og að falla frá því sem við höfum nefnt fjallatoppakenningu," segir Guðný.

Nýjast