Barátta hafin við skógarkerfil í Eyjafjarðarsveit

Skógarkerfill hefur breiðst hratt út í Eyjafjarðarsveit á liðnum árum en nú á að grípa til vopna og ráðast gegn frekari útbreiðslu hans. Umhverfisnefnd Eyfjarðarsveitar hefur fengið Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri til liðs við sig við skipulagningu verksins og er ætlunin að hefjast handa á komandi sumri. Ýmsar aðferðir verða notaðar til að ráða niðurlögum plöntunnar að sögn Valgerðar Jónsdóttur sem sæti á í umhverfisnefnd. Valgerður segir að kerfillinn hafi byrjað að breiða úr sér fyrir nokkrum árum, þá yst í sveitarfélaginu en nú er svo komið að hann hefur lagt undir sig stór svæði, bæði tún og gróið land, og út um allt sveitarfélag. „Þetta er ágeng planta og þó hún sé í sjálfu sér falleg þá þykir íbúum nú nóg komið, kerfillinn er nánast orðið einráður og veður yfir allt," segir Valgerður. Mikilvægt er að hennar sögn að íbúar sem ekki kæra sig um kerfilinn á sínu landi taki þátt, þeir verði að halda vöku sinni og gera hvað þeir geta til að ráða niðurlögum hans. Verkefnið tekur nokkur ár, segir Valgerður, en reynslan af aðgerðum nú í sumar verður nýtt til áframhaldandi baráttu gegn plöntunni.

Nýjast