Smári er þess fullviss að bálförum muni fjölgar á Akureyri á næstu árum, en kostirnir séu margvíslegir. Fyrir Kirkjugarðinn þýði það mun minni rekstrarkostnað, leiðin eru minni og kostnaður þar með líka vegna umhirðu. Bendir hann á að plássleysi muni að líkindum fara að segja til sín í Kirkjugarði Akureyrar innan 10 til 15 ára, en bálförum syðra fjölgaði umtalsvert í kjölfar þess að Fossvogskirkjugarður varð fullsetinn. Mörgum hafi ekki hugnast leggjast til hinstu hvílu í nýjum garði, þar sem ekki var komin gróður og fátt um ættingja og vini. "Margir tóku því þann kost að kjósa bálför og komast að í leiði hjá ættingjum sínum í Fossvogi fremur en að hvíla í Gufuneskirkjugarði. Við það jukust bálfarir talsvert fyrir sunnan. Það má vera að sama þróun verði uppi á teningnum hjá okkur þegar þar að kemur," segir Smári.