Bálfarir einungis um 1% útfara á Akureyri

Bálfarir eru einungis um 1% allra útfara á Akureyri sem er umtalsvert minna en á höfuðborgarsvæðinu þar sem bálfarir eru á bilinu 20 til 25% allra útfara. Tekin hefur verið í notkun í Kirkjugarði Akureyrar nýr reitur fyrir duftker og að sögn Smára Sigurðssonar framkvæmdastjóra þeirra er möguleiki á stækkun hans. Hann kvaðst ekki hafa á reiðum höndum svör við því af hverju Akureyringar kjósi bálfarir í minna mæli en íbúar höfuðborgarsvæðisins.  "Það er dýrt að lifa og það er dýrt að deyja," segir hann og vísar m.a. til þess að kjósi íbúar landsbyggðarinnar bálför þarf af flytja líkið suður til brennslu og bætist þar með kostnaður við útför sem er ærinn fyrir.  Telur Smári ekki útilokað að innan fárra ára muni Kirkjugarðurinn taka þann aukakostnað á sig.

Smári er þess fullviss að bálförum muni fjölgar á Akureyri á næstu árum, en kostirnir séu margvíslegir.  Fyrir Kirkjugarðinn þýði það mun minni rekstrarkostnað, leiðin eru minni og kostnaður þar með líka vegna umhirðu.  Bendir hann á að plássleysi muni að líkindum fara að segja til sín í Kirkjugarði Akureyrar innan 10 til 15 ára, en bálförum syðra fjölgaði umtalsvert í kjölfar þess að Fossvogskirkjugarður varð fullsetinn.  Mörgum hafi ekki hugnast leggjast til hinstu hvílu í nýjum garði, þar sem ekki var komin gróður og fátt um ættingja og vini.  "Margir tóku því þann kost að kjósa bálför og komast að í leiði hjá ættingjum sínum í Fossvogi fremur en að hvíla í Gufuneskirkjugarði.  Við það jukust bálfarir talsvert fyrir sunnan.  Það má vera að sama þróun verði uppi á teningnum hjá okkur þegar þar að kemur," segir Smári.

Nýjast