13. nóvember, 2007 - 16:30
Í tilefni fimm ára afmælis Frostrósa munu íslensku dívurnar halda jólatónleika í fjórum af fegurstu kirkjum landsins á aðventunni: Stykkishólmskirkju, Glerárkirkju Akureyri, Ísafjarðarkirkju og Egilsstaðakirkju. Miðasala hófst mánudaginn 12. nóvember á midi.is og afgreiðslustöðum mida.is og seldist upp á tónleikana í Glerárkirkju á örfáum klukkustundum og voru hafðar hraðar hendur við að koma á aukatónleikum vegna fjölda áskorana. Jafnframt er uppselt á tónleikana á Egilsstöðum og hefur aukatónleikum einnig verið komið á þar og er miðasala á báða aukatónleikana hafin. Þetta er í fyrsta skipti í fimm ára sögu Frostrósa sem tónleikar eru haldnir um landið. Íslensku dívurnar er óþarfi að kynna enda hafa Margrét Eir, Hera Björk, Heiða Ólafs og Regína Ósk sungið sig inn í hug og hjörtu landsmanna á undanförnum árum. Á þessari tónleikaför syngja dívurnar inn jólin með strengjakvartett, öðrum hljóðfæraleikurum og góðum gestum. Tónlistarstjóri er Karl O. Olgeirsson. Tónleikarnir eru á eftirtöldum stöðum:
Stykkishólmskirkja, miðvikudaginn 5. desember kl. 20:30
Glerárkirkja, fimmtudaginn 6. desember kl. 20:30. Aukatónleikar kl. 18:00.
Ísafjarðarkirkja , föstudaginn 7. desember kl. 20:30
Egilsstaðakirkja, laugardaginn 8. desember kl. 20:30. Aukatónleikar kl. 18:00.
Frostrósatónleikarnir hafa svo sannarlega slegið í gegn frá því þeir voru fyrst haldnir jólin 2002. Tónleikarnir eru orðnir að föstum lið í jólaundirbúningi hjá þúsundum landsmanna og hefur aðsóknin aukist svo ár frá ári að Íslandsmet var slegið árið 2005. Enn fleiri komu svo á fyrstu alþjóðlegu tónleikana í fyrra. Þess má geta að upptökum frá tónleikunum í Hallgrímskirkju í fyrra verður sjónvarpað til yfir 20 landa um þessi jól og ná til tuga milljóna áhorfenda, segir í fréttatilkynningu.