Er þetta í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til þess að gefa markvisst yfirlit á einni sýningu yfir sögu skapandi ljósmyndunar hér á landi, frá upphafi til dagsins í dag. Á sýningunni er verk níu látinna ljósmyndara og fjögurra sem enn starfa. Sýningarstjórinn valdi ekki fólk sem fætt er eftir 1960 og einungis fólk sem gerði ljósmyndun að ævistarfi og starfaði því við fagið á um langt skeið. Verk ellefu karlmanna og tveggja kvenna eru á sýningunni, en fram á síðustu áratugi heyrði það til undantekninga að konur störfuðu markvisst við ljósmyndun lengur en í örfá ár. Ljósmyndararnir eru: Sigfús Eymundsson, Nicoline Waywadt, Magnús Ólafsson, Pétur Brynjólfsson, Sigríður Zoëga, Jón Kaldal, Ólafur Magnússon, Vigfús Sigurgeirsson, Ólafur K. Magnússon, Guðmundur Ingólfsson, Sigurgeir Sigurjónsson, Ragnar Axelsson og Páll Stefánsson.
Sigfús Eymundsson (1837-1911) kom heim til Íslands árið 1866 eftir að hafa lokið ljósmyndanámi í Noregi. „Sagt hefur verið að heimkoma Sigfúsar marki þáttaskil. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem náði að gera ljósmyndun að lífsstarfi - og var frábær ljósmyndari, einn sá allra merkilegasti sem hér hefur starfað, til þessa dags.
Í vali sínu á ljósmyndurum og myndum þeirra beinir Einar Falur einkum sjónum að manninum, mannlífi og hinu manngerða í umhverfinu. Hann segir að ekki sé þó hægt að líta fram hjá því að hér hefur ætíð búið fátt fólk í stóru og margbrotnu landi, og náttúru- og landslagsljósmyndun hefur skipað stærri sess hér en víðast hvar. „Ljósmyndavélin gerir það sama á Íslandi og annarsstaðar. Þetta er aðeins skráningartæki. Það eru afstaða og sýn ljósmyndarans á heiminn sem skipta öllu máli."
Ljósmyndirnar á sýningunni í Listasafninu á Akureyri eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Morgunblaðsins og ljósmyndaranna. Sýningin er gerð í sérstöku samstarfi við bókaútgáfuna Sögur ehf. og Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin stendur til 18. október.