Árni Helgason ehf. í Ólafsfirði átti lægsta tilboð í vegaframkvæmdir í Hörgárbyggð en tilboðin voru opnuð
í vikunni. Fyrirtækið bauð 33,4 milljónir króna eða tæplega 90% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á um 37,5
milljónir króna.
Um er að ræða endurbyggingu á um 4,84 km löngum kafla Hörgárdalsvegar (815) í Hörgárbyggð, frá núverandi slitlagsenda
hjá Björgum að Hólkoti í Hörgárdal. Alls bárust fimm tilboð í verkið. Istrukkur ehf. á Kópaskeri bauð rúmar 35
milljónir króna, Dalverk ehf. á Dalvík bauð 35,7 milljónir króna, GV gröfur ehf. buðu um 38,4 milljónir króna og G.
Hjálmarsson hf. bauð um 50,8 milljónir króna. Samkvæmt útboði skal verkinu að fullu lokið 1. september í haust.