Andrésar Andar leikarnir eru haldnir í 33 skiptið í Hlíðarfjalli í ár og hófust þeir í gær, sumardaginn fyrsta og lýkur á laugardag. Veðurspáin er ágæt og aðstæður í fjallinu eru frábærar, raunar þær bestu í mörg ár að sögn Ingólfs Gíslasonar, sem situr í starfsnefnd leikana.
Fjölmörg fyrirtæki koma að leikunum með styrkveitingum af ýmsu tagi og nýverið bættist KEA í þann hóp, þeir Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og Björn Gunnarsson formaður Skíðafélags Akureyrar undirrituðu samninga þess efnis fyrir helgi.
Ingólfur Gíslason segir að von sé á vel rúmlega 2000 manns í bæinn í tengslum við leikana, tæplega 800 keppendum auk þjálfara, fararstjóra og fjölskyldna.
Langstærsta mótið í skíðaheiminum á Íslandi
Leikarnir eru langstærsta skíðamótið á landinu ár hvert, þrisvar til fjórum sinnum stærri en þau mót sem komast næst þeim. Enda er mikið verk að skipuleggja svo stórt mót en um árs undirbúningur liggur að baki hverju móti og er sérstök nefnd á vegum Skíðafélags Akureyrar starfrækt sem hefur það hlutverk eitt að sjá um undirbúning og framkvæmd leikanna. Að sögn Ingólfs starfa um 250 manns við mótið að þessu sinni, eða um 70-80 manns á dag, þannig að umfangið er gríðarlegt.
Yngsti aldursflokkur á leikunum er 6 ára en sá elsti 14 ára og má yfirleitt gera að því skóna að þeir sem vinna leikana í sínum aldursflokki séu líklegar skíðastjörnur Íslendinga í framtíðinni. Þannig má sem dæmi nefna að Dagný Linda Kristjánsdóttir, Björgvin Björgvinsson og Kristinn Björnsson voru öll tíðir sigurvegarar á Andrésar Andarleikunum á sínum tíma.
Tíu norskir keppendur
Oftar en ekki koma erlendir keppendur til keppni á Andrésar Andar leikunum og að þessu sinni koma 10 krakkar frá Kongsberg í Noregi til að taka þátt. Ástæða heimsóknarinnar segir Ingólfur sé nokkuð merkileg, hinir íslensku Andrésar Andarleikar eru í raun eftirmynd Andrésar Andarleikanna í Noregi sem einmitt voru haldnir í Kongsberg en lögðust af fyrir um 15-20 árum. Þessir krakkar sem koma nú frá Noregi eiga það flestir sameiginlegt að eiga foreldra sem tóku þátt á Andrésar Andarleikunum í Noregi og vildi leyfa krökkum sínum að upplifa þessa miklu skemmtun sem Andrésar Andarleikarnir í Hlíðarfjalli eru.