Almenn fyrirtækjalöggjöf og grunnsjónarmið gildi um rekstur fyrirtækja á orku og veitusviði

Aðalfundur Norðurorku hf. sem haldinn var fyrir helgina samþykkti ályktun, þar sem fram kemur að áhersla sé lögð á að almenn fyrirtækjalöggjöf og grunnsjónarmið gildi um rekstur fyrirtækja á orku- og veitusviði. Sérlögum ber að halda í lágmarki og þau taki aðeins á nauðsynlegustu atriðum sem almenn lög ná ekki yfir. Mikilvægt er að sjálfstæði fyrirtækjanna sé virt og sérlög rýri hvorki verðgildi þeirra né möguleika eigenda til þess að njóta eðlilegs arðs. Sú varð því miður raunin um raforkudreifinguna. Þessu verður að breyta nú þegar og mikilvægt að sagan endurtaki sig ekki gagnvart hitaveitum. Fundurinn telur því brýnt að fullt samráð verði haft við hagsmunaaðila og sjónarmið þeirra virt. Aðalfundur Norðurorku lýsir jafnframt áhyggjum sínum af getu flutningskerfis raforku og krefst þess að úr verði bætt. Ófullnægjandi aðgengi að raforku hamlar uppbyggingu iðnaðar þar sem svo háttar. Bilanir í Sultartangastöð í vetur sýna að nauðsynlegt er að byggðalína verði styrkt hið fyrsta með hagsmuni allra landsmanna í huga. Það er álit aðalfundar Norðurorku hf. að óhjákvæmilegt sé að nú þegar verði ráðist í styrkingu á kerfi Landsnets og fjármunir til þess verks komi úr ríkissjóði. Hér er um sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna að ræða, því líta ber á flutningskerfi raforku á sama hátt og þjóðvegi, hafnir og flugvelli landsins.

Nýjast