15. febrúar, 2008 - 14:12
Mikil magnaukning var á síðasta ári á flokkuðu rusli sem fyrirtæki og einstaklingar skiluðu til Sagaplast - Endurvinnslunnar á Akureyri, að
sögn Gunnars Garðarssonar framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Er þarna um að ræða sömu þróun og síðustu ár en mikil
aukning er á ári hverju í sorpi sem skilað er til endurvinnslunar. Gunnar segir að dósir og plastflöskur séu aðeins lítill hluti þess
sem berist fyrirtækinu til endurvinnslu. Þar sé tekið á móti öllum mögulegum hlutum, til dæmis fernum, dagblöðum og tímaritum,
spilliefnum, dekkjum, gúmmíi og mörgu fleiru.
„Í dósum og plastflöskum hefur aukningin verið um 3-5% árlega undanfarin ár en til samanburðar hefur aukningin í dagblöðum og
tímaritum sem skilað er inn til endurvinnslu verið um 25-40% árlega sl. ár," sagði Gunnar. Þetta þakkar hann bættri umhverfisvitund
bæjarbúa og bendir jafnframt á að mörg hundruð heimili séu nú þegar að borga 1000 kr. á mánuði fyrir að fá að
flokka sorp í sérstakar endurvinnslutunnur. Gunnari finnst undarlegt að Akureyrarbær skuli ekki hygla því fólki á einhvern hátt sem sé
duglegt við að flokka sorp sitt og skila því til endurvinnslu. Margar leiðir séu til þess en lítið sé að gert. „Mér finnst
þetta skrýtið og maður spyr hvort þarna sé á ferðinni kjarkleysi hjá bæjaryfirvöldum að gera ekki eitthvað í
málinu," sagði Gunnar.