Auður ræddi málið við Njörð og hann greindi henni frá stúlkunum, sem menn héldu í fyrstu að væru tvíburasystur. "Mér leist vel á, sló bara til og ákvað að styðja þær," segir Auður, en síðar kom í ljós að stúlkurnar voru systur, ekki tvíburar og á milli þeirra var tveggja ára aldursmunur. "Mér fannst það ekki skipta máli hvort þær væru tvíburar eða systur og var ákveðin í að taka þær að mér," segir Auður. Hún hefur stutt þær systur í rúm tvö ár, frá upphafi ársins 2006 og meðlagið er 77 evrur með hvoru barni. Innan tíðar mun Auður láta af stuðningi við yngri stúlkuna, en margir eru á biðlista eftir að styðja börn í barnaþorpi Spes þannig að hún mun áfram njóta stuðnings.
Faðir stúlknanna er látinn og móðir þeirra berst við veikindi og hefur ekki tök á að annast börn sín. Þær Afí og Betó eiga fjögur önnur systkin en sjá þau afar sjaldan. Eyðni er útbreitdd í landi eins og víðar í Afríku og mörg börn búa við hörmulegar aðstæður. Fátækt, malaría og eyðnifaraldurinn hefur leitt til þess að fjölmörg börn verða foreldralaus og lenda á vergangi. Þau börn sem komið hafa í barnaþorpið eru illa á sig komin m.a. sökum vannæringar.
Peningarnir fara í réttar hendur
Auður segir einnig frá því að allt fé sem fólk láti af hendi rakna fari beint í umönnun foreldralausra barna, ekkert er notað í yfirbyggingu, ferðalög eða umsýslukostnað og allt starf samtakanna er án endurgjalds. Öll vinna félaga er sjálfboðaliðastarf. Það fé sem fólk greiðir mánaðarlega rennur til barnanna, það fær fæði og húsnæði í þorpinu, menntun í nálægum skóla, lækniskostnaður er greiddur og annað slíkt en að auki er hluti fjárins lagður til hliðar í sjóð sem börnin fá afhentan þegar þau yfirgefa þorpið 18 ára gömul. Það er nokkurs konar heimanmundur sem þau geta ráðstafað að vild. Það nýtist þeim við að koma sér áfram í lífinu, hvort heldur er til að afla sér frekari menntunar að setja á fót lítið fyrirtæki. "Peningarnir fara í réttar hendur, það finnst mér mikilvægt , það kemur í góðar þarfir og nýtist vel."
Langþráður draumur Auðar rættist nú í upphafi árs þegar hún átti þess kost að heimsækja barnaþorpið og hitta stúlkurnar sínar. "Þegar þetta allt saman var ákveðið og ég var á leiðinni út fannst mér það of gott til að geta verið satt. Af öllum þeim löndum sem ég hef ferðast til og stöðum sem ég hef komið á var þetta toppurinn," segir Auður. Hún dvaldi í Lomé í hálfan mánuð og hitti stúlkurnar á hverjum degi. Þær hittust í þorpinu á hverjum degi eftir skóla og voru saman við ýmsa iðju fram á kvöld. "Það eru yndisleg börn þarna í þorpinu, þau eru afar róleg, kurteis og afslöppuð," lýsir Auður.
Stórkostleg reynsla og mikil upplifun
Húsin í barnaþorpinu eru fallega hönnuð og litrík. Þau eru úr steinsteypu og stórum múrsteinum sem gerðir eru á staðnum en byggt er á húsahefð frá Norður-Tógó. "Húsin eru mjög falleg og litrík og lífga svo sannarlega upp á tilveru barnanna. Þar eru nú 80 börn og þeim fer fjölgandi eftir því sem starfseminni vex fiskur um hrygg. Þessi börn sem þarna eru eiga líf sitt þorpinu að þakka, það hefur svo sannarlega gefið þeim von um betra líf," segir Auður.
Tógó er sárafátækt land, en íbúarnir eru að sögn Auðar afar alúðlegir og brosa mikið. Hún segir börnin viðráðanleg og þæg, venjan er sú að um 80 börn eru saman í bekk og veldur það kennaranum ekki vandræðum. Það vakti nokkra athygli gestsins frá Akureyri. "Það eru engin læti í þessum krökkum," segir hún. Ferðin út til Tógó var mjög skemmtileg segir hún og lærdómsrík. Hún átti yndislegar stundir með stúlkunum sínum og þær náðu vel saman þó ekki gætu þær spjallað mikið. "Það má segja að allar mínar óskir í lífinu séu nú uppfylltar, allt sem á eftir kemur verður bónus. Þetta var stórkostleg reynsla og mikil upplifun," segir Auður.