22. desember, 2007 - 18:38
Alls voru 95 nemendur brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri í vikunni og hafa aldrei fleiri nemendur verið brautskráðir frá skólanum á þessum árstíma. Í þessum hópi voru m.a. 37 stúdentar, 14 sjúkraliðar og 28 rafvirkjar. Í máli Hjalta Jóns Sveinssonar skólameistara kom fram að nemendum af erlendu bergi brotnum fjölgaði á hverju ári og nú er svo komið að í skólanum eru nemendur af níu þjóðernum. Um 1350 nemendur hófu nám við skólann í haust auk þess sem 700 innrituðust í fjarnám. Hjalti Jón sagði að nú sem hin síðari ár hafi nemendum fjölgað jafnt og þétt. "Við reiknum ekki með að þeim geti fjölgað öllu meira - enda er það svo að húsnæði skólans rúmar ekki umfangsmeiri starfsemi en þá sem fyrir er og má segja að við höfum teflt á tæpasta vað í haust og að lengra verði ekki gengið að óbreyttu," sagði Hjalti Jón. Hann gerði frumvörp til laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla að umtalsefni og sagði að þau gæfu mörg fyrirheit og vonir um að skemmtilegir tímar fari í hönd. Hjalti Jón sagði að með nýju lögunum verði öflugum framhaldsskólum á borð við VMA gert kleift að bjóða upp á nám á tækniskóla- eða háskólastigi. "Við hugsum okkur að sjálfsögðu gott til glóðarinnar - og munum m.a að líkindum geta boðið brautskráðum iðnmeisturum upp á nám í iðnfræði, svo dæmi sé tekið, en hingað til hefur slíkt aðeins verið á valdi háskóla eða tækniskóla. Þá sjáum við hér raunhæfan möguleika á að bjóða hinum fjölmörgu efnilegu nemendum okkar upp á frekara listnám að loknu stúdentsprófi," sagði Hjalti Jón.