Maímánuður verður fjörlegur hjá LA og því í takt við einkar glæsilegt leikár sem er senn á enda. Gestir á Akureyri
verða um 40.000 þegar leikárinu lýkur og hafa aldrei verið fleiri.
Troðfullt hefur verið út úr dyrum á allar sýningar vetrarins en þær hafa allar, Óvitar, Ökutímar, Fló á skinni og
Dubbeldusch, notið fádæma vinsælda. Aðsóknin í ár verður um 40% meiri en á síðasta leikári sem þó var
metár. Tvær vinsælar sýningar LA, Fló á skinni og Dubbeldusch, víkja af fjölunum nú í lok apríl til að rýma til
fyrir síðustu sýningum leikársins. Fló á skinni verður svo frumsýnt á stóra sviði Borgarleikhússins 5. september n.k.
Leikárinu á Akureyri lýkur með gestasýningum. Mikil eftirvænting hefur ríkt fyrir komu Killer Joe en sýningar verða upp úr miðjum
maí, þá hefur nú verið tilkynnt hver óvissusýning ársins er. Þar er á ferðinni drepfyndin sýning Eddu
Björgvinsdóttur Alveg brillíant skilnaður sem sýndur verður í lok maí. Í byrjun maí verður leikhúsið í
fósturhlutverki við fjörlega sýningu á Wake me up sem glæsilegur hópur ungra leikara í grunn- og menntaskólum Akureyrar setja upp undir
stjórn Guðjóns Davíðs Karlssonar.