Aldrei fleiri flugfarþegar á milli Akureyrar og Reykjavíkur

Farþegar Flugfélags Íslands á milli Akureyrar og Reykjavíkur náðu því að verða 200.000 í dag 31. desember - og þar með var slegið met í farþegafjölda á þessari flugleið. Þetta er ekki eina metið sem slegið var á árinu. Heildarfjöldi farþega um völlinn stefnir í 220.000 sem er um 10% aukning frá síðasta ári. Það var Inga Dís Árnadóttir sem varð farþegi númer 200.000 en hún var á leið frá Akureyri til Reykjavíkur nú í hádeginu ásamt þremur ungum börnum sínum og fékk hún blómvönd frá Flugstoðum og farseðil á flugleiðinni Akureyri - Reykjavík - Akureyri frá Flugfélagi Íslands. Millilandafarþegar voru tæp 13.000, aðeins færri en árið 2006 sem var algjört metár í millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Ástæða þessarar fækkunar er að áætlunarflug IcelandExpress stóð aðeins í þrjá mánuði árið 2007 og haustflug á vegum félagsins var lítið í ár. Nýting flugsæta þessa þrjá mánuði var samt sem áður mun betri en árið 2006. Flugfélag Íslands tók upp þá nýbreytni í samstarfi við Icelandair að bjóða upp á beint flug til og frá Keflavík þrjá daga í viku í tengslum við áætlunarflug Icelandair til Evrópu og Ameríku og mæltist það mjög vel fyrir. Fraktflutningar um Akureyrarflugvöll hafa aukist verulega frá sl. ári eða um 100%. Rétt um 1000 tonn hafa verið flutt með flugi til og frá Akureyri - þar af 600 tonn til útlanda. Flugumferð um Akureyrarflugvöll stefnir í að verða 15% meiri en á árinu 2006, eða um 20.000 flughreyfingar alls.

Nýjast