Aldrei fleiri farþegar með Hríseyjarferjunni

Stærsta ár í sögu Hríseyjarferjunnar Sævars var í fyrra, árið 2007, en þá voru fluttir tæplega 61 þúsund farþegar á milli lands og eyjar. „Við höfum aldrei flutt svona marga farþega áður, ” segir Smári Thorarensen á Hríseyjarferjunni, en að jafnaði undanfarin ár hafa farþegar verið á bilinu 55-59 þúsund talsins.

„Við komumst núna í fyrsta sinn yfir 60 þúsund og erum bara ánægðir með það.” Ferðamannastraumur til og frá Hrísey var með svipuðum hætti á liðnu ári og þeim sem á undan hafa farið, sama gildir að sögn Smára um ferðalög eyjaskeggja, „en ég held að bygging íþróttahússins og umstangið í kringum það hafi hér haft mest að segja, það voru daglega að koma alls konar hópar í kringum þetta verkefni allt árið og þar með fjölgaði okkar farþegum.”

Smári segir menn að vonum ánægða með gott gengi á liðnu ári, einkum í ljósi þess að það var hið fyrsta í nýjum samningi við Vegagerðina um rekstur ferjunnar, „þess vegna er auðvitað gaman að það gekk svona vel hjá okkur.” Hann segir enga ástæðu til annars en horfa með bjartsýni fram á nýtt ár, ferðamannastraumur til eyjarinnar fari vaxandi ár frá ári, en það sem menn þurfi nú að einblína á er finna eitthvað sem heldur ferðafólki í eynni. Flestir stoppi stutt, dagpart eða bara rétt á milli ferða. „Það hlýtur að verða okkar verkefni að fá ferðamenn til að staldra aðeins við í eynni og skilja eitthvað eftir sig, til þess er leikurinn gerður,” segir hann og bætir við að Hrísey hafi til að mynda dottið út af kortum ferðaskrifstofa sem aki útlendingum um landið í rútum. Áður hafi farþegar í slíkum ferðum komið í eyna og borðað á Brekku, en það sé liðin tíð. „Við erum útúr og ferðaskrifstofurnar að spara,” segir Smári.

Bryddað verður upp á þeirri nýbreytni nú næsta sumar að bjóða farþegum skemmtiferðaskipa sem sigla inn Eyjafjörð til Akureyrar að kaupa ferð í Hrísey og væntir Smári þess að ferð af því tagi myndi mælast vel fyrir á meðal þeirra.

Nýjast