Akureyringar keppa á Evrópumótinu í krullu

Lið frá Krulludeild Skautafélags Akureyrar tekur þátt í Evrópumótinu sem fram fer í Füssen í Þýskalandi dagana 1.-8. desember. Þetta er í fyrsta sinn sem lið frá Íslandi fer til þátttöku á Evrópumóti en áður hafa lið héðan farið tvisvar til keppni á Heimsmeistaramóti eldri leikmanna. Með sigri á Íslandsmótinu fyrr á árinu tryggði lið úr Krulludeild SA sér rétt til þátttöku á EM. Liðið nefnist Kústarnir og er skipað fimm starfsmönnum Vegagerðarinnar á Akureyri. Þrír úr því liði fara til keppni á EM og sá fjórði sem þjálfari en að auki hafa þeir fengið til liðs við sig tvo leikmenn úr öðru liði. Í liðinu eru Eiríkur Bóasson, Ólafur Hreinsson og Kristján Þorkelsson úr Kústunum, ásamt Gunnari H. Jóhannessyni þjálfara, en til liðs við þá koma Ágúst Hilmarsson og Jón S. Hansen. Jón verður fyrirliði liðsins. Tveir úr liðinu, Eiríkur og Ágúst, hafa áður keppt fyrir Íslands hönd á HM eldri leikmanna ásamt því að Jón hefur farið á það mót sem þjálfari. Metþátttaka er á mótinu en 55 lið frá 32 þjóðum taka þátt, 32 í karlaflokki og 23 í kvennaflokki. Meðal keppenda á mótinu eru nokkrir keppendur sem komið hafa til keppni á Ice Cup mótinu á Akureyri á undanförnum árum. Íslenska liðið leikur í B-flokki þar sem þetta er fyrsta keppni okkar á þessum vettvangi en mögulegt er að vinna sér rétt til keppni í A-flokki með góðum árangri í B-flokknum. Aðeins tíu lið leika í A-flokki hverju sinni en öll önnur lið í B-flokki og er þeim skipt í þrjá riðla. Mótherjar okkar í Riðli B1 eru Austurríki, Belgía, Grikkland, Írland, Kazakhstan, Holland og Spánn.

Nýjast