Akureyri er úr leik í Eimskipsbikarkeppninni í handbolta eftir annað tap liðsins fyrir Fram á fjórum dögum. Leikurinn fór fram í Framhúsinu í Reykjavík fyrir framan þó nokkurn fjölda áhorfenda. Fyrri hálfleikur var mjög jafn og fast leikinn af beggja hálfu. Raunar gengu leikmenn skrefinu of langt því að þeir Nikolaj Jankovic úr Akureyri og Andri Berg Haraldsson úr Fram fengu að líta rauða spjaldið fyrir stimpingar undir lok hálfleiksins. Staðan í hálfleik var 13-13 og munaði aldrei meira en tveimur mörkum á liðunum.
Í byrjun síðari hálfleiks var leikurinn áfram jafn en svo fór smám saman að halla undan fæti hjá Akureyri og þegar um 10 mín. voru til leiksloka var Fram komið með fjögurra marka forystu 23-19. Gestirnir gáfust hins vegar ekki upp og náðu með ágætum leikkafla að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var til leiksloka. Akureyri gaf eftir á lokakaflanum í leiknum eins og oft áður í vetur, Framarar skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og tryggðu sér sætan þriggja marka sigur 27-24. Þar með er bikardraumur Akureyrar úti þetta árið og liðið getur farið að einbeita sér að því að tryggja sætið í efstu deild.