Þá segir í ályktuninni að stóriðjustefnan sé á fullri siglingu, drifin áfram meðal annars af ráðherrum Samfylkingarinnar. Frávísun umhverfisráðherra á kæru Landverndar undirstrikar kjarkleysi ráðherrans, sem hafði næg rök og lagaheimildir til að láta náttúruna njóta vafans og efna þannig loforð sín við kjósendur. Stjórnmál eiga að snúast um stefnumótun en ekki hagsmunagæslu kerfisins. Þar hafði umhverfisráðherra tækifæri til að standa við stóru orðin, setja náttúruvernd í forgang. Með álveri í Helguvík er ekki aðeins verið að stefna umhverfinu í voða, heldur líka efnahag þjóðarinnar sem nú berst við verðbólgu og himinháa vexti, afleiðingar þenslu af völdum stóriðjuframkvæmda undanfarinna ára.
Til viðbótar eru í undirbúningi álver á Bakka og í Þorlákshöfn og vægast sagt langsóttar hugmyndir uppi um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, sem allt ýtir undir væntingar og verðbólgu. Þannig er þjóðinni haldið í heljargreipum á meðan engin skilaboð koma frá stjórnvöldum. Það er skaðlegt fyrir byggðirnar sjálfar að vera í stöðugu óvissuástandi um framtíð atvinnumála sinna. Slíkt ástand drepur niður frumkvæði heimamanna. Vísbendingar eru nú um að álversframkvæmdir fyrir austan hafi því miður ekki skilað Austfirðingum þeim viðsnúningi í byggðaþróun sem lofað var á sínum tíma, segir ennfremur í ályktun stjórnar VG.