Áhugafólk um nýsköpunarmið- stöð og iðngarða boðar til stofnfundar

Áhugafólk um nýsköpunarmiðstöð og iðngarða, GRASRÓT, boðar til stofnfundar á morgun miðvikudag kl. 20.00 í gömlu Slippstöðinni á Akureyri. Félagið hefur það að markmiði að koma á fót fjölþættri grasrótar- og þróunarmiðstöð fyrir atvinnusköpun og menningartengd verkefni með áherslu á sjálfbæra þróun. Þeir sem vilja bæta og byggja upp samfélagið, eru hvattir til að mæta á fundinn og kynna sér málið.  

Strax eftir efnahagshrunið í haust fór hópur fólks á Akureyri að hittast til að mótmæla ástandinu en líka til að vinna að lausnum í grasrótinni, undir nafninu; "Bylting Fíflanna". Eftir þreifingar hjá bæjaryfirvöldum og stofnunum hittist hópurinn formlega í fyrsta sinn í  byrjun desember sl. Meðal annars var ákveðið var að leita að hentugu húsnæði til að setja upp iðngarða eða útungunarstöð og láta þar með langþráðan draum rætast. Hér er um að ræða einhverskonar grasrótar- margmiðlunar- og þróunarmiðstöð fyrir atvinnusköpun og menningartengd verkefni, segir m.a. í fréttatilkynningu.
Það hefur sannað sig víða um heim að fyrirbæri af þessu tagi hafa jákvæð áhrif á fólkið sem þar starfar en einnig á samfélagið í heild. Það er t.d. þekkt úr viðskiptalífi að fjölbreytt starfsemi undir sama þaki, "viðskiptasamtök" eða stuðningshópar auka hugmyndaauðgi og stuðla að krossfrjóvgun milli greina. Iðngarðar af þessum toga eru líka vel til þess fallnir að vera í farabroddi í vistvænni hönnun og nýsköpun, ekki síst nýsköpun sem snýr að endurnýtingu og gjörnýtingu afurða og úrgangs. Hér er um að ræða miðstöð fyrir skapandi og virka þátttöku í samfélagi með nær endalausa möguleika.
Nú er búið að fá aðstöðu í gamla Slippnum en gömul iðnaðarhúsnæði bjóða einmitt upp á hráa og óþvingaða umgjörð sem þarf til að móta síbreytilegt umhverfi fyrir starfsemi af þessum toga. Til stendur að stofna vinafélag/ samtök/ félag um iðngarðana þar sem velunnarar geta stutt starfsemina og staðið vörð um hugmyndafræði og útfærslu iðngarðana. Í grófum dráttum gengur hugmyndina út á það að útbúa sameiginlega vinnuaðstöðu fyrir fjölbreytta starfsemi sem er tengd ýmiss konar iðnaði, þjónustustörfum og menningarstarfi. Til að mynda væri æskilegt að koma á fót saumastofu, trésmiðastofu, vélarými, tölvuveri, málningaraðstöðu og fleira. Einnig yrðu til staðar vinnustofur þar sem frumkvöðlar geta unnið áfram að sínum verkefnum í meira næði. Sameiginlegt og opið kaffihús auk mötuneytis gefur fólki úr mismunandi greinum færi á að hittast auk þess sem gestir og væntanlegir "nýliðar" eiga greiðan aðgang inn í "iðngarðasamfélagið". Kaffistofan gæti verið einskonar hjarta iðngarðanna og móttaka í senn.  Æskilegt er að bókhaldsstofa sé starfrækt fyrir iðngarðana, helst innan veggja hússins. Reglulegar uppákomur og sýningarhald eiga að skapa lifandi umgjörð sem hvetur til nýsköpunar og samvinnu milli greina, býr til opinn og óþvingaðan aðgang fyrir gesti og gangandi að kíkja inn.
Iðngarðahugmyndin er ekki ósvipuð Punktinum í Rósenborg nema með áherslu á atvinnusköpun sem tengist ekki síður körlum. Svokallaðar "útungunarstöðvar" voru mjög algengar í Hollandi þegar kreppan var þar í kringum 1970.  Það voru svipuð fyrirbæri og iðngarðar sem lifðu lengi og ýmis sprotafyrirtæki sem spruttu upp úr því framtaki eru enn starfrækt.  Einkenni iðngarðanna eru að þau eru kvik - þar á að eiga sér stað síendurnýjanleg starfsemi - sumt til lengri tíma, annað fast en margt fer í gegnum ákveðin þróunarskeið þangað til starfsemi er tilbúin að standa á eigin fótum og getur þá væntanlega flutt annað.  Iðngarðarnir munu breytast með tíðarandanum.  Iðngarðarnir geta einnig átt drjúgan þátt í að endurreisa iðnmenningu, hönnun- og framleiðslufyrirtæki á Eyjafjarðarsvæðinu með nýjar áherslur á sjálfbærni, vistvænni hönnun og mannauði.
Mjög mikilvægt er að virkja sem breiðastan hóp fólks í þetta fyrirbæri þ.e.a.s. fagfólk (hönnuði, smiði, saumafólk), ungt fólk, leikmenn, atvinnulaust fólk, eldri borgara, unglinga og fólk sem er að fóta sig á ný eftir margvisleg áföll í lífinu en hefur litla möguleika og passar ekki inn í programmið hjá Menntasmiðjunni, Fjölsmiðjunni, Bjargi eða eru að koma þaðan og vantar úrræði fram að næsta áfanga.

Hugmyndir sem meðal annars komu til tals :

-       Fatahönnun / framleiðsla með ungu fólki í farabroddi
-       Bátasmiðja (þegar komin á fullt skrið)
-       Leikfangagerð
-       Tölvuver / viðgerðir
-       Minjagripaframleiðsla  m.a. úr skógarafurðum
-       Eldhús
-       Leikklúbburinn Saga
-       Verkstæði fyrir unglinga / ungt fólk
-       Hjólreiðasmiðja / leigu
-       Endurvinnsla og söfnun á  vörubrettum, pappakössum, gleri
-       Myndlistasýningar, vinnustofur
-       Hljóðfærasmíði
-       Endurgerð og umbreytingar á gömlum húsgögnum í samvinnu við starfandi húsgagnafyrirtæki og sýningarsali fyrir sunnan
-       Remida - efnisveita fyrir menntastofnanir bæjarins og námskeið í skapandi verkefnum á sumrin
-       Hljóð- og myndvinnsla
-       Nýsköpun, vistvæn hönnun og vöruþróun úr endurunnu "hráefni" sem ennþá flokkast gjarnan undir rusl.

Áhugaverð hugtök, stikkorð og vefsíður til að horfa á og hafa bak við eyrað:

-       Transition towns - http://www.transitiontowns.org/
-       http://www.hugmyndaraduneytid.is/
-       cradle to cradle - http://www.mcdonough.com/cradle_to_cradle.htm
-       noppes.nl - hagkerfi fólksins í Amsterdam
-       permaculture - http://en.wikipedia.org/wiki/Permaculture
-       handverksmenning
-       endurvekja íslenska framleiðslu
-       taka á móti atvinnulausum - námskeið
-       atvinnusköpun
-       samvinna við menntastofnanir

Bátasmiðjan hefur nú verið starfrækt í 2 mánuði, einn starfsmaður var ráðinn af Nökkva með styrk frá Vinnumálastofnun og Akureyrarbæ og síðan eru 2 lánsstarfsmenn frá Fjölsmiðjunni. Þar eru nú 14 bátar í smíðum af einstaklingum, bæði vinnandi og atvinnulausum.  Þetta eru kayakar, kanóar og stærri bátar fyrir mótora og segl. Starfsmenn bátasmiðju vinna í eldri bátum klúbbsins og einnig er að fara í gang smíði á flotbryggjum fyrir Nökkva í samvinnu við Hafnasamlagið. Auk þess er kominn vísir að hjólreiðasmiðju og listahópur Huglistar mun sjá um að skreyta hjól sem verða væntanlega notuð í reiðhjólaleigu í sumar.

Nýjast