Um eitt hundrað manns sóttu kynningarfund sem fyrirtækið Becromal efndi til í Verkmenntaskólanum á Akureyri nýverið, en fyrirtækið
reisir nú aflþynnuverksmiðju í Krossanesi.
Fundurinn var einkum ætlaður þeim sem ætla sér að sækja um atvinnu hjá fyrirtækinu að sögn Magnúsar Þórs
Ásgeirssonar framkvæmdastjóra Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Á fundinum var starfsemin kynnt og hvernig vinnustaðurinn í
Krossanesi verður. Magnús segir áhugann mikinn og verksmiðjan muni hefja starfsemi á hárréttum tíma, hún verði kærkomin
viðbót við atvinnulífið í bænum og mikil innspýting í það. Framkvæmdir við verksmiðjuna ganga að hans sögn vel,
byrjað er að steypa upp verksmiðjuhúsið, en áætlanir gera ráð fyrir að starfsemin hefjist næsta haust, að líkindum í
október eða nóvember.