Í yfirlýsingu Guðmundar framkvæmdastjóra GV grafa segir ennfremur: "Það vekur furðu af hverju Sævar sendi ekki sína eftirlitsmenn á vettvang og lét stöðva þessi meintu lögbrot og af hverju stöðvaði lögreglan ekki akstur bifreiðanna eftir að þeim var gert viðvart? Var það kannski vegna þess að engin lög voru brotin? Af hverju ákváðu Akureyrarbær og lögregla þá í sameinginu að loka götunni - var það hugsanlega til að fá vinnufrið fyrir áköfum embættismanni?
Sævar Ingi segir Vegagerðina ekki leyfa notkun þessara tækja á sínum vegum nema á lokuðum svæðum, en þessi fullyrðing er klárlega RÖNG því samkvæmt útboðsgögnum Vegagerðarinnar kemur fram að heimilt er að nota námubifreiðar með ákveðnum skilyrðum þó almenn umferð sé um vinnusvæði. Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja er námubifreið skilgreind þannig: "Bifreið sem hönnuð er stærri en hámarksgildi í reglum um stærð og þyngd ökutækja segja til um og er ætluð til efnisflutninga utan vega eða innan afmarkaðra vinnusvæða", en vinnusvæði GV grafa í Miðhúsabraut er slíkt "afmarkað vinnusvæði."
Það hlýtur að vera umhugsunarefni að fyrirtæki þurfi að búa við ástæðulaust áreiti opinberra starfsmanna sem reyna að beita lögreglu og bæjaryfirvöld þrýstingi og halda fram ásökunum um lögbrot í fjölmiðlum, án þess að færa nein haldbær rök fyrir sínu máli eða leggja fram kæru," segir í yfirlýsingu Guðmundar Gunnarssonar.