Kíkja á að leggja af módelið með fókus á konseptinu
Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein segir á einum stað: Allt sem á annað borð er hægt að hugsa, er hægt að hugsa skýrt. Allt sem á annað borð er hægt að segja, er hægt að segja skýrt. Á öld upplýsingamengunar, þar sem áróðursfjölmiðlun ræður ferð - öld sem kölluð hefur verið bullöld - þyrftu fleiri að læra af orðum Wittgensteins: tala skýrt og hugsa skýrt.
Í kvæðinu Móðir mín segir Einar Benediktsson:
Þú last þetta mál með unaði og yl
yngdan af stofnunum hörðu.
Ég skildi að orð var á Íslandi til
um allt sem er hugsað á jörðu.
Flestir hafa skilið orð skáldsins á þann veg að í íslensku væru til orð um allt sem hugsað er á jörðu. Þetta er hugarsýn Einars Benediktssonar sem sjálfur gerði mörg skáldleg nýyrði. Ef til vill er þó full djúpt í árinni tekið að í íslensku séu til orð um allt sem er hugsað á jörðu, enda hefur íslensk tunga orðið - og verður um ókomna framtíð - að taka orð að láni eða mynda ný orð að erlendri fyrirmynd, eins og rætt hefur verið hér í þessum þætti.
En þótt ekki séu til orð í íslensku um allt sem er hugsað á jörðu þarf ekki úr öðrum tungumálum orð til láns að taka eða brákað mál né bögur að þiggja, eins og Guðbrandur Þorláksson Hólabiskup orðar þetta í formála að Sálmabókinni 1589. Nú er svo komið að danska sögnin kíkja - kigge - hefur lagt að velli íslensku sögninni líta - að ekki sé talað um notkun sagnanna sjá, skoða og kanna. Í auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi heyrist dag út og dag inn: kíktu á, kíktu inn, kíktu í, kíktu við. Vel mætti segja: líttu inn, komdu í heimsókn, skoðaðu bókina, kannaðu verðið - stað þess að klifa á brákuðu sögninni kíkja: kíktu inn, kíktu í heimsókn, kíktu á bókina, kíktu á verðið.
Annað orð, sem klifað er á, er danska sögnin aflægge í stað þess að nota: leggja niður, hætta við, láta af, losa sig við, ljúka við - og segja: leggja niður flugvöllinn í Vatnsmýrinni, hætta við samskipti, láta af styrkveitingum og losa sig við ósiði í stað þess að segja eins og sagt er: afleggja flugvöllinn í Vatnsmýrinni, afleggja styrkveitingar og afleggja samskiptin við Kína.
Eftirfarandi setningu mátti svo heyra úr munni myndlistarmans í menningarþætti í Ríkisútvarpinu fyrir skömmu: Til þess að verkið lúkki vel er algert must að hafa fókus á konseptinu svo hægt sé að presentera myndlist. Á íslensku hljómar þetta þannig: Til þess að verkið líti vel út og hafi áhrif er nauðsynlegt að einbeita sér að sjálfri hugmyndinni svo unnt sé að kynna myndlist. Ekki þarf úr öðrum tungumálum orð til láns að taka eða brákað mál né bögur að þiggja.
Trtyggvi Gíslason