69. þáttur 21. febrúar 2013

Í þessum þætti er fjallað um íslenskt mál, málfræði, örnefni og mannanöfn, auk þess sem svarað er spurningum lesenda. tryggvi.gislason@simnet.is

Tíðir sagna og töluorð

Lesandi þáttarins spyr, hversu margar tíðir sagna séu í íslensku. Því er til að svara, að í íslensku eru tíðir sagna aðeins tvær: nútíð: ég les – og þátíð: ég las. Lengi var kennt að í íslensku væru tíðir sagna átta. Auk nútíðar og þátíðar voru tíðirnar þessar: núliðin tíð: ég hef lesið, þáliðin tíð: ég hafði lesið, framtíð: ég mun les, þáframtíð: ég mun hafa lesið, skildagatíð: ég mundi lesa og þáskildagatíð: ég mundi hafa lesið.

Þegar þannig var kennt, var íslensk málfræði sniðin eftir málfræði latínu, en í latínu hafa sagnorð sex ólíkar orðmyndir sem tákna mismunandi tíðir: nútíð (praes?ns), þátíð (imperfectum), framtíð (fut?rum simplex), núliðin tíð (perfectum), þáliðin tíð (plusquamperfectum) og þáframtíð (fut?rum exactum). Við þessar sex tíðir í latínu bættu lærðir menn á Íslandi við tveimur tíðum: skildagatíð og þáskildagatíð. Aukatíðirnar sex í íslensku eru hins vegar sagnasambönd, mynduð með hjálparsögnunum hafa og munu, og fela í sér viðhorf eða skilyrði, eins og þegar við segjum: „Ég mundi hafa lesið bókina [skilyrði], ef ég hefði haft tíma til.” Þarna er um að ræða atburð sem gerðist í þátíð en er bundinn því skilyrði að ég hefði haft tíma til. Sagnasambandið var kallað þáskildagatíð.

Fyrir áhugasama lesendur má benda á tvær greinar eftir dr. Höskuld Þráinsson prófessor um sagnbeygingu og tíðir: „Hvað eru margar tíðir í íslensku og hvernig vitum við það?”. Íslenskt mál 1999:181-224) og „Um nafngiftir hjálparsagnasambanda.” Íslenskt mál 2001:229-252.

Beyging og framburður töluorðanna tveir og þrír vefst fyrir fólki. Töluorðið tveir beygist þannig: kk: tveir, tvo, tveimur, tveggja – kvk: tvær, tvær, tveimur, tveggja – hvk: tvö, tvö, tveimur, tveggja. Algengt er að heyra og sjá þágufallið tveim. Ekki er hægt að amast við þeirri beygingarmynd, þótt hún sé ekki upphafleg. Nú heyrist ungt fólk hins vegar segja: /*tvem/. Sá framburður getur ekki talist réttur samvkæmt uppruna og hefð. Því er illt til þess að vita, að fréttamönnum RÚV – í „musteri íslenskrar tungu”, leyfist að nota þennan ranga framburð.

Beyging töluorðsins þrír er á sama hátt: kk: þrír, þrjá, þremur, þriggja – kvk: þrjár, þrjár, þremur, þriggja – og í hvk: þrjú, þrjú, þremur, þriggja. Þarna er hið sama að segja: þágufallið þrem heyrist iðulega og sést á prenti. Skal ekki amast við þeirri beygingarmynd, fremur en beygingarmyndinni tveim, þótt ekki sé hún upphafleg. Hins vegar er hugsanlegt að fyrir áhrif frá þágufallsmyndinni þrem sé fólk farið að segja /*tvem/.

Nýjast