„Vonandi verðum við hér í fimm ár“

Sigrún Elín Brynjarsdóttir, Kaðlínkona. Mynd/epe
Sigrún Elín Brynjarsdóttir, Kaðlínkona. Mynd/epe

Handverkshópurinn Kaðlín hefur nú flutt sig frá Hafnarstétt 1. á Húsavík en opnuð hefur verið verslun að Naustagarði 1., húsnæði í eigu Norðursiglingar.

„Já, við vorum að flytja alveg yfir götuna,“ segir Sigrún Elín Brynjarsdóttir Kaðlínkona þegar blaðamaður Vikublaðsins leit við á dögunum.

Frumkvöðlar í upplýsingum

Handverkshópurinn Kaðlín hefur verið starfandi frá árinu 1993 þegar hópurinn opnaði handverksmarkað í Borgarhúsinu, sem þá var kallað en hýsir í dag stjórnsýslu Norðurþings. Það má líka segja að Kaðlínkonur hafi verið frumkvöðlar á Húsavík en þær voru einnig með upplýsingaþjónustu fyrir ferðamenn, þá fyrstu í bænum. Skemmtileg tilviljun en upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn var einmitt í sama húsnæði og þær eru í nú, Naustagarði og skiltið hangir enn uppi. „Enda koma hingað margir í leit að upplýsingum og  við tökum öllum fagnandi,“ segir Sigrún Elín og bætir við að þegar þær byrjuðu með upplýsingamiðstöð árið 1993 hafi helsta upplýsingaveitan verið textavarp sjónvarpsins. „Já, þarna var ekki internetinu fyrir að fara og tölvur í raun ekki algengar. Það voru þarna nokkrir strákar sem kenndu okkur að fletta í textavarpinu en þar voru allar helstu upplýsingar um flug, gistingu, veður og nýjustu fréttir.“

Hún segir að reyndar sé Kaðlín búið að vera hálfgerð upplýsingamiðstöð í gegnum tíðina. „Um leið og þú ert komin í ferðaþjónustutengda starfsemi, þá ertu alltaf að svara spurningum ferðamanna um allt mögulegt.“

Frá 1993 hefur starfsemi Kaðlín verið víða. Læknishúsinu, Verbúðinni og um tíma í Pakkhúsinu hjá Sölku svo dæmi séu tekin. „Vonandi verðum við hér í fimm ár, segir Sigrún Elín og hlær.

Hún segist vera ákaflega ánægð með nýju staðsetninguna að Naustagarði 1. „Við erum komnar í gullkistu bæjarins og erum mjög sýnilegar. Getum gert okkur rosalega áberandi, þó við þurfum þess auðvitað ekki,“ segir Sigrún Elín og hlær.

Kaðlínhópurinn telur í dag 18 manneskjur, 17 konur og einn karl. „Þetta er fjölbreyttur hópur. Fjölbreytnin er náttúrlega jafn mikil og þær 18 manneskjur sem í hópnum eru. Við höfum alltaf keppst við það að fá karlmenn í hópinn og ef þeir vilja koma þá eru þeir eru meira en velkomnir,“ segir Sigrún Elín.

 Landinn keypti meira handverk í fyrra

Kófið hefur haft áhrif á starfsemi handverkshópsins eins og annarra sem starfa í ferðaþjónustutengdum greinum. Sigrún Elín segir þó að ekki sé yfir neinu að kvarta enda hafi sumarið í fyrra verið gott þó erlenda ferðamenn hafi vantað.

„Það er náttúrlega allt öðruvísi þegar það er meira um Íslendinga en erlenda ferðamenn, þeir kaupa samt alls ekki minna. Ég held einmitt að Íslendingar hafi keypt meira af handverki til tækifæris- og jólagjafa en þeir eru vanir. Ég hugsa líka að þeir hafi dressað sig meira upp í íslensku lopapeysuna en í venjulegu ári,“ segir hún og hlær. „Við erum að finna fyrri þessu núna líka að íslenskir ferðamenn eru alveg hiklaust að kaupa peysurnar af okkur.“

Fengu góða kynningu úr Óskarsævintýrinu

Talandi um lopapeysur, þá fékk Kaðlín aldeilis flotta auglýsingu fyrri skemmstu þegar stúlkur úr Borgarhólsskóla sungu lagið Husa­vik – My Home Town úr myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga ásamt Molly Sandén á Óskarsverðlaunahátíðinni eins og frægt er orðið. Stúlkurnar voru klæddar í íslenskar lopapeysur frá Kaðlín en milljónir fylgdust með atriðinu um allan heim.

Sigrún Elín tekur undir þetta og segist hafa fundið fyrir áhrifunum þegar Eurovision fór fram í maí. „Það var ofboðslega gaman þegar Eurovision meldingarnar voru í gangi á samfélagsmiðlum, þá sáum við nafnið okkar uppi með myllumerkinu #Peysureruíkaðlín.

 Þurfa ferðamenn að halda í sér?

Þá segir Sigrún Elín að Kaðlín eigi sér fastakúnna um allan heim sem koma reglulega aftur. „Það var einn sem kom bara í morgun og spurði hvar konurnar væru sem voru með snyrtinguna hinu megin við götuna í fyrra,“ segir hún og spyr við það tilefni hvað Húsvíkingar ætli sér að gera í salernismálum eftir að almenningssalerninu að Hafnarstétt 1. var lokað? Í dag eru engin almennings klósett á hafnarsvæðinu nema auðvitað hjá Hvalaskoðunarfyrirtækjunum og veitingastöðunum. Nú skora ég á bæinn að opna eitthvað. Þörfin er mikil og það eru ekki allir að fara í Hvalaskoðun. Ég hugsa að sjoppurnar eigi eftir að hrökkva í kút,“ segir Sigrún Elín að lokum.


Athugasemdir

Nýjast