„Uppspretta umræðna og skoðanaskipta um náttúruvernd“

Sýningin fjallar um Laxárdeiluna, skýrir atburðarásina í máli og myndum og sýnir frá baráttu fyrir v…
Sýningin fjallar um Laxárdeiluna, skýrir atburðarásina í máli og myndum og sýnir frá baráttu fyrir verndun náttúrunnar. Hún fjallar um tengsl manns og náttúru og kemur þar sjálf Laxá við sögu. Mynd/epe

Skömmu fyrir jól opnaði sýningin Laxárdeilan: Morgunroði náttúruverndar á Íslandi í Safnahúsin á Húsavík.

Sýningin fjallar um Laxárdeiluna, skýrir atburðarásina í máli og myndum og sýnir frá baráttu fyrir verndun náttúrunnar. Hún fjallar um tengsl manns og náttúru og kemur þar sjálf Laxá við sögu.Silla

Um sýningarstjórn sá Sigurlaug Dagsdóttir og var gerð sýningarinnar styrkt af Safnasjóði. Efni var unnin upp úr safnkosti Menningarmiðstöðvar Þingeyinga. Í Samtali við Vikublaðið sagði Sigurlaug að vegna aðstæðna í samfélaginu hafi ekki verið haldin formlega  opnun en að hún vonist til þess að úr því verði bætt þegar aðstæður leyfa. Það verði auglýst þegar að því kemur.

Sýningin er staðsett á efstu hæð Safnahússins á Húsavík. Hægt er að njóta hennar á opnunartíma Safnahússins sem er virka daga frá 10 til 17 og laugardaga frá 10 til 15. Sýningin mun standa til sumarloka 2022.

Sigurlaug segir að umfjöllunarefni sýningarinnar sé Laxá og Laxárdeilan. Fjallað er um vistfræði árinnar, tengsl fólks við ána og að lokum baráttu fyrir verndun hennar.

„Sýningin skýrir frá atburðarás deilunnar. Túlkun og sjónarhorn sýningarinnar leggur áherslu á náttúruvernd þar sem atburðarrás Laxárdeilunnar er sett í samhengi við tengsl mannkynsins við náttúruna, náttúruvernd, sögu náttúruverndar og ýmsar nálganir á náttúruna í menningarsögu mannkyns,“ segir Sigurlaug og bætir við að atburðarás Laxárdeilunnar sé opin fyrir fleiri túlkunum en koma fyrir á sýningunni. Skrifað hafi verið um deiluna frá ýmsum sjónarhornum, henni hafi verið gerð góð skil í fræðiritum, blaðagreinum og á kvikmyndatjaldinu. „Ljóst er að Laxárdeilan verður áfram uppspretta umræðna og skoðanaskipta um náttúruvernd.“

Þá skýrir Sigurlaug frá því að margt hafi breyst í viðhorfum Íslendinga og ekki síður íslenskra stofnana gagnvart náttúrunni og náttúruvernd frá því að lokasættir urðu í Laxárdeilunni. „Gott er að hafa í huga að viðhorf einstaklinga og stofnana sem birtast á sýningunni eru lituð af þeim tíma er deilan átti sér stað. Margt hefur breyst síðan þá og er tilgangur sýningarinnar ekki að fella dóm yfir þeim sem stóðu í framlínu deilunnar, hvort sem um er að ræða andstæðinga eða fylgjendur stækkunar virkjunar í Laxá við Brúar í Aðaldal,“ segir Sigurlaug.

Sýningin er tileinkuð öllum unnendum Laxár- og Mývatnssvæðissins í fortíð, nútíð og framtíð.


Athugasemdir

Nýjast