Óæskileg hegðun yfirleitt birtingarmynd mun stærri og flóknari tilfinningavanda

„Það var ánægjulegt hversu margir nýttu sér tækifærið, komu í heimsókn og kynntu sér starfsemina,“ s…
„Það var ánægjulegt hversu margir nýttu sér tækifærið, komu í heimsókn og kynntu sér starfsemina,“ segir Valdimar Heiðar Valsson skólastjóri Hlíðarskóla. Myndir: MÞÞ

mth@vikubladid.is

„Það var ánægjulegt hversu margir nýttu sér tækifærið, komu í heimsókn og kynntu sér starfsemina,“ segir Valdimar Heiðar Valsson skólastjóri Hlíðarskóla, en í tilefni 40 ára afmælis skólans var opið hús í skólanum. Fjölmargir gestir lögðu leið sína í skólann, skoðuðu aðstöðuna, verk nemenda og fræddust um skólahaldið. Hlíðarskóli er við Skjaldarvík, hann er innan grunnskólakerfis Akureyrarbæjar og ætlaður nemendum með hegðunar- og aðlögunarvanda, félags- og tilfinningaleg vandamál og er einnig til stuðnings fyrir fjölskyldur þeirra.

Valdimar segir kærkomið að kynna starfsemi skólans, nemendur hans komi yfirleitt úr öllum grunnskólum Akureyrarbæjar en þó sé starfsfólk innan þeirra veggja sem ekki hafi komið í Hlíðarskóla og viti í raun ekki fyrir hvað skólinn stendur. „Það er okkar draumur að opna skólann út á við og kynna starfsemi hans fyrir sem flestum,“ segir Valdimar.

Skólinn var stofnaður haustið 1982, þá staðsettur við Bröttuhlíð 6 á Akureyri og dró nafn sitt af götunni, kallaður Bröttuhlíðarskóli fyrstu árin. Kristinn G. Jóhannsson var skólastjóri á árunum 1982 til 1998, við starfi hans tók Már Magnússon og starfaði árin 1998 til 2000, Bryndís Valgarðsdóttir frá árinu 2000 til 2021 og Valdimar, núverandi skólastjóri hóf störf haustið 2021. Fjórir skólastjórar hafa því stýrt skólanum yfir 40 ára tímabil.

Rými fyrir 20 nemendur eftir að byggt var við

Fyrstu árin voru nemendur á bilinu 6 til 7 talsins, en á árinu 2000 var ákveðið að færa starfsemi skólans að Varpholti skammt norðan Akureyrar, en Valdimar segir að þörf hafi verið á að þjónusta fleiri nemendur. Fáum árum síðar, 2005 fékk skólinn afnot af húsnæði í Skjaldarvík sem fékk nafnið Skjöldur og var með starfsemi sína á báðum stöðum um skeið, í Varpholti og Skildi. Árið 2008 var stúlknadeild stofnuð í húsnæði sem kallað er Vík og er einnig í Skjaldarvík, en starfsemin færðist þá alfarið frá Varpholti í Skjaldarvík. Byggt var við húsnæðið Vík í Skjaldarvík og það stækkað talsvert árið 2018. „Eftir að viðbótarhúsnæði var tekið í notkun er rými fyrir 20 nemendur hjá okkur. Eftirspurnin eftir plássi er mikil t.d. vorum við með 22 nemendur stóran hluta seinasta vetrar og nokkra nemendur á biðlista,“ segir Valdimar.

Hlíðarskóli 40 ára

Þessir hressu strákar, nemendur Hlíðarskóla, Héðinn, Darri, Matthías, Jónas, Egill, Aron, Máni og Lúkas tók vel á móti gestum sem streymdu að í tilefni 40 ára afmælis skólans.

Hlíðarskóli er tímabundið úrræði sem tekur við þegar reynt hefur verið til þrautar að mæta þörfum nemanda í sínum heimaskóla. Valdimar segir að nokkuð misjafnt sé hversu lengi hver og einn nemandi sæki skólann, ekki sé óalgengt að þeir séu þar í tvo vetur, einhverjir skemur og aðrir lengur. „Nemendur koma hingað til okkar þegar búið er að reyna til þrautar í þeirra heimaskólum. Það má segja að við byrjum á því að núllstilla nemandann með því að vinda ofan af þeirri neikvæðu hegðun sem hefur verið í gangi. Til að geta gert það þarf yfirleitt að komast að rót vandans,“ segir Valdimar og bendir á að óæskileg hegðun sé yfirleitt birtingarmynd mun stærri og flóknari tilfinningavanda. „Við þurfum því að komast að því hvað veldur þessari hegðun í stað þess að einblína á hegðunina sjálfa. Þannig að til að byrja með einblínum við á að bæta líðan okkar nemenda og að þeir finni að þau geti treyst okkur og finnist þau örugg innan veggja skólans. Þegar traustið er komið og nemandinn hefur unnið vel í sinni líðan aukum við kröfurnar á námslega og félagslega þáttinn. Ég hef alltaf sagt að það er mjög erfitt fyrir nemendur að standa sig vel í námi og sína fyrirmyndarhegðun ef þeim líður alltaf illa sama hver ástæðan er,“ segir Valdimar.

Neikvæð upplifun af skólagöngunni

Nemendur Hlíðarskóla hafa flestir neikvæða upplifun af sinni skólagöngu. „Þeim nemendur sem koma í Hlíðarskóla hefur liðið illa í skólanum af ýmsum ástæðum og það er mikil vinna að koma krökkunum á réttan kjöl. Margir eru með greiningar af einhverju tagi, ADHD, eru á einhverfu -rófi, eiga við hegðunar- eða tilfinningarvanda að stríða. Sum þeirra hafa einfaldlega bara komist upp með að stjórna bæði sínu heimili og skólastofunni. Barn sem hefur komist áfram og fengið vilja sínum framgengt með frekju og stjórnsemi lætur ekkert af þeirri iðju svo glatt. Sum eru með algjöra stjórn á heimilinu og þá er algengt að aðrir fjölskyldumeðlimir séu orðnir meðvirkir. Það þarf að brjóta upp það munstur og styrkja aðra fjölskyldumeðlimi út úr meðvirkninni þannig að foreldrarnir séu þeir sem stjórni á heimilinu en ekki barnið. Börn sem hafa slíka stjórn berjast með kjafti og klóm til að halda í þessi völd,“ segir Valdimar.

Hlíðarskóli er meira en eitthvað exelskjal

Hlíðarskóli er sérúrræði og segir Valdimar að oft hafi þurft að berjast fyrir tilverurétti hans, en af og til þegar bærinn þurfi að hagræða í rekstri hafi komið til tals að loka skólanum. „Pólitíkin á það til að vera nokkuð rúðustrikuð og horfa bara á tölurnar í exelskjalinu,“ segir Valdimar og bætir við að það þurfi að horfa á heildarmyndina þegar svona úrræði eru skoðuð. „Það er bara þannig að við erum með þyngstu tilfellin í skólakerfinu hverju sinni. Einstaklinga með mjög erfiða og neikvæða hegðun.“

Valdimar segir að færu þeir allir inn í sína heimaskóla, í 20 manna bekki, hefðu þeir áhrif á hundruð samnemendur sem mögulega fengju verri kennslu og þjónustu fyrir vikið,“ segir hann. Einnig eru í Hlíðarskóla nemendur með mikla skólaforðun, nemendur sem hafa kannski ekki mætt í skólann í rúmlega tvö ár. „Það eru gríðarlega erfið tilfelli og vandasamt að ná nemanda aftur inn í skólann sem hefur verið svona lengi fjarverandi. Það er því algjör fásinna að horfa bara á þá 20 nemendur sem vistast í Hlíðarskóla því það hefur áhrif víðar t.d. í hinum skólunum og heimilum nemenda.“

Höfum séð ótrúlegan árangur

Hlíðarskóli

 

Hlíðarskóli stendur við Skjaldarvík, skammt norðan Akureyrar og þar er rými fyrir 20 nemendur. Eftirspurn eftir plássi er mikil. Skólinn er innan grunnskólakerfis Akureyrar.

Valdimar segir að foreldrar fái einnig mikinn stuðning og handleiðslu frá  fjölskylduráðgjafa sem er gríðarlega mikilvægt því oft hafi vandinn verið viðvarandi og foreldrar orðnir örmagna, að því komnir að gefast upp. Ekki verði metið til fjár að hlúa að foreldrum og gefa þeim von um að hlutirnir geti batnað.

„Við erum stolt af því starfi sem hér er unnið og höfum séð ótrúlegan árangur hjá okkur nemendum. Ég gæti talið upp svo mörg dæmi þar sem nemendur hafa snúið við blaðinu og náð stórkostlegum árangri. Mér er ofarlega í huga nemandi sem hafði ekki mætt í skólann í tvö og hálft ár vegna kvíða og vanlíðunar. Það var langt og strangt ferli og urðum við að vinna traust nemandans í hænuskrefum. Það tókst á endanum og nemandinn byrjaði að mæta í skólann. Þessi nemandi útskrifaðist síðan úr 10.bekk með drauma og von um að fara í framhaldsskóla. Það er fátt sem jafnast á við að vera þátttakandi í svona viðsnúningi, það er algjörlega ómetanlegt“.

Brenna fyrir að hjálpa krökkunum

Valdimar segir þann góða árangur sem nemendur Hlíðarskóla nái ekki sjálfsagðan. „Þetta eru náttúrulega ótrúlegir frábærir krakkar og þau sem þiggja aðstoðina ná yfirleitt árangri. Það er öllu erfiðara að hjálpa þeim sem enga hjálp vilja þiggja. Þetta er mjög krefjandi starf og mikið álag en ég verð að gefa starfsfólki mínu mikið hrós fyrir þá vinnu sem það leggur í þetta. Þau brenna fyrir að hjálpa þessum krökkum og þarna er mikil reynsla á ferð. Ég get eiginlega ekki þakka þeim nóg fyrir það mikla framlag sem þau gefa til skólans og nemenda hans“. 


Athugasemdir

Nýjast