Nemendur við Hlíðarskóla styrktu Krabbameinsfélag Akureyrar

Nemendur við Hlíðarskóla.
Nemendur við Hlíðarskóla.

Nemendur við Hlíðarskóla á Akureyri ákváðu að styrkja Krabbameinsfélag Akureyrar með áheitahlaupi í íþróttatímanum sínum á dögunum. Veðrið lék við nemendur sem héldu sig vel við efnið og fóru upp og niður heimreiðina að skólanum í rúma klukkustund.

Í aðdraganda hlaupsins fóru nemendur á milli starfsmanna skólans og söfnuðu áheitum á hverja ferð sem þeir hlupu en hver ferð var einn kílómeter. Nemendur fóru samtals 73 kílómetra, frá einni ferð upp í 7 ferðir hjá þeim sem fór lengst.

Alls söfnuðust tæplega 30.000 krónur sem var afhent fulltrúa Krabbameinsfélagsins við Hlíðarskóla sl. fimmtudag. Nemendur tóku á móti gestinum með nafni félagsins á skreyttum blöðum og þannig varð hlaupið að samþættingu samfélagsfræði, íslensku, stærðfræði, íþróttum og myndmennt. Tókst gjörningurinn vel og stefnt er að því að endurtaka leikinn að ári.


Nýjast