Metnaðarfull uppbygging fyrirhuguð að Hrauni í Öxnadal

Neðst frá vinstri: Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Þórarinn Pétursson al…
Neðst frá vinstri: Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Þórarinn Pétursson alþingismaður, Miðröð Ásta Júlía Aðalsteinsdóttir í stjórn Hrauns, Ingibjörg Isakssen alþingismaður, Ásrún Árnadóttir sveitarstjórnarfulltrúi, Valgerður Gunnarsdóttir í stjórn Hrauns, Hanna Rósa Sveinsdóttir formaður verkefnastjórnar, Efst: Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri, Þorsteinn Rútsson í stjórn Hrauns, Sunna María Jónasdóttir í sveitarstjórn og Axel Grettisson oddviti Hörgársveitar. Mynd Kolbrún Lind Malmquist

Fyrirhuguð er uppbygging að Hrauni í Öxnadal sem hefur það markmið að heiðra minningu þjóðskáldsins, Jónasar Hallgrímssonar sem þar fæddist. Staðurinn skipar stóran sess í huga þjóðarinnar sem fæðingarstaður hans og vegna einstakar náttúrufegurðar með Hraundrangann sem höfuðtákn.  Frá 1996 hefur fæðingardagur Jónasar, 16. nóvember, verið tileinkaður íslenskri tungu og minningu hans verið haldið á lofti með ýmsum hætti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsótti Hraun fyrr á árinu í boði stjórnar Hrauns, hlutafélag sem starfað hefur frá árinu 2003og er í eigu 15 aðila. Með ráðherra í för voru fulltrúar úr sveitarstjórn og samflokksmenn Lilju Daggar. Verkefnastjórn hefur verið skipuð sem á að leggja fram tillögur að uppbyggingu á Hrauni. Hanna Rósa Sveinsdóttir var skipuð formaður verkefnastjórnar en hún er jafnframt formaður stjórnar Hrauns.

Skila tillögum fyrir haustið 2024

Hún segir að í bígerð sé fundur með verkefnastjórn þar sem farið verður yfir næstu skref og áfangaskiptingar, en gert er ráð fyrir að tillögum verði skilað til stjórnvalda fyrir haustið 2024.„Það liggur nú þegar fyrir stefnumótun fyrir Hraun í Öxnadal sem var unnin af stjórn Hrauns í samvinnu við ýmsa hagaðila á svæðinu á árunum 2019-2020 og var samþykkt af eigendum Hrauns árið 2020. Stefnumótuninni fylgir tímasett aðgerðaráætlun sem því miður hefur ekki komið til framkvæmda nema að litlum leyti en vonandi horfir nú til betri vegar með framhaldið eftir að stjórnvöld koma nú verkefninu með ákveðnum hætti,“ segir Hanna Rósa.

Vinna að einskærum áhuga og metnaði

Hún gerir ráð fyrir að sú stefnumótun sem til er verði mikilvægt innlegg í vinnu verkefnastjórnar auk nánari útfærslu á áhugaverðum vinklum út frá henni. „Staðan nú, með afgerandi þátttöku stjórnvalda er afrakstur margra ára vinnu stjórnar Hrauns við að ýta málinu að þeim. Þar hefur stjórnin notið fulltingis og velvilja sveitarstjórnar Hörgársveitar, sem stutt hefur verkefnið með árlegu rekstrarframlagi og notað hvert tækifæri til að vekja athygli á málefnum Hrauns í Öxnadal við þingmenn og ráðherra,“ segir Hanna Rósa og bætir við að stjórn Hrauns sé eingöngu skipuð áhugasömum aðilum og öll vinna stjórnar unnin í sjálfboðavinnu  af einskærum áhuga og metnaði fyrir uppbyggingu á fæðingarstað Jónasar á þessum einstaka stað sem Hraun í Öxnadal er.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast