„Gróðurhús þar sem kynslóðir rækta saman andann“

Hildur Halldórsdóttir (SSNE), Þorsteinn S. Benediktsson, Ottó Elíasson (Eimur), Kolfinna María Níels…
Hildur Halldórsdóttir (SSNE), Þorsteinn S. Benediktsson, Ottó Elíasson (Eimur), Kolfinna María Níelsdóttir (Eimur), Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims og Stefán Pétur Sólveigarson, verkefnastjóri Hraðsins, Nýsköpunarmiðstöðvar á Húsavík. Mynd/epe.

Hugmyndir um að byggja samfélagsgróðurhús á Húsavík þar sem nýttur verður sá mikli jarðvarmi sem er á Húsavík voru kynntar á íbúafundi á Fosshótel Húsavík á mánudag. Vel var mætt á fundinn og greina mátti mikinn áhuga fyrir verkefninu meðal fundargesta.

Um er að ræða samstarfsverkefni þróunar- og nýsköpunardeildarinnar Eims, samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE), og Hraðsins, nýsköpunarmiðstöðvar á Húsavík. Hugmyndin er hluti af stærra Evrópuverkefni sem Eimur tekur þátt í um að vinna með jarðvarma á mismunandi stöðum í Evrópu.

SAmfélagsgróðurhús

Sesselja Ingibjörg Barðdal Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Eims sagði á fundinum að verkefnið væri komið á þann stað að kominn væri tími á að kanna áhuga íbúa Húsavíkur á hugmyndinni áður en lengra væri haldið. Meðal næstu skrefa er að hópfjármagna verkefnið en miðað við andann á fundinum ætti það að vera auðsótt.

Hildur Halldórsdóttir verkefnastjóri hjá SSNE var ein þeirra sem stóð að kynningunni. Hún sagði meðal annars að Sóknaráætlun Norðurlands eystra væri leiðarljós í starfi SSNE og að gegnum gangandi væri markmiðið að efla Norðurland eystra sem eftirsótt svæði til atvinnu og búsetu. Í því fælist t.d. að stuðla að góðu mannlífi og tækifærum til nýsköpunar.

Að rækta garðinn sinn

„Maður verður að rækta garðinn sinn. Það er hægt að leggja margs konar merkingu í þessi orð, en ein túlkun er sú að hver og einn beri ábyrgð á því að skapa sína eigin paradís í samspili við nærumhverfi sitt og samferðarfólk,“ sagði Hildur og benti á að það væri líklega ekki tilviljun að sagnorðin að rækta og að blómstra séu notuð í víðtækari merkingu en þeirri bókstaflegu þar sem jarðvegurinn kemur við sögu. „Geðrækt, að rækta hæfileika og blómstra, rækta samband við ættingja, vini og kunningja, að rækta tómata, að rækta barnið i sjálfum sér, að rækta andann.“

Þá sagði Hildur að henni þætti ágætt að hugsa þetta mögulega verkefni sem tækifæri eða tól, til að búa til stað fyrir fólk með svipuð áhugamál eða gildi, til að hittast.

Samfélagsgróðurhús

„Fólk er eins misjafnt og það er margt, en hamingjan er okkur öllum mikilvæg. Það hlýtur að vera hagur samfélaga að byggja upp innviði sem veita íbúum fleiri tæki og tól til að vera hamingjusamir íbúar. Hamingjusamir íbúar er góð landkynning fyrir starfs- og búsetuskilyrði, í Norðurþingi sem og annars staðar.Fyrir mitt leyti er eitt af aðdráttarafli Húsavíkur hversu auðsótt það er að njóta útivistar og óspilltrar náttúru. Norðurþing er heilsueflandi samfélag og því áhugavert að hugsa samfélagsgróðurhús sem framsækna og umhverfismiðaða hugmynd fyrir bæjarbraginn. Gróðurhús þar sem kynslóðir rækta saman andann,“ sagði hún

 Samvera og viðburðir

Hugmyndin eins hún var kynnt á fundinum gengur út á að byggja 100 fermetra gróðurhús við Ásgarðsveg. Hluti gróðurhússins verði hugsaður undir frumkvöðlastarfsemi en að öðru leiti fyrir t.d. skóla og almenning til að rækta saman og öðlast þekkingu. Þá verði einnig boðið upp á reiti í kring þar sem almenningi gefst kostur á að vera með sín eigin minni gróðurhús. Þá eru einnig hugmyndir uppi um að aðalgróðurhúsið verði ákjósanlegur staður fyrir viðburðahald.

 Frumkvöðlastarf

Hugmyndir Eims ganga meðal annars út á það að í hluta af samfélagsgróðurhúsinu verði unnið nýsköpunarstarf. Börkur Emilsson og Þorsteinn Snævar Benediktsson eigendur Húsavík öl hafa gegnið til liðs við Eim og hyggjast hefja tilraunir á humlaræktun.

"Við erum að fara með aðstoð Eims út til Bandaríkjanna að skoða humlarækt. Við höfum fengið að nálgast verkefnið frá okkar sjónarhorni af því ég hef þessa þekkingu á bruggun,“ útskýrir Þorsteinn og kveðst spenntur fyrir verkefninu.  

 Bjór úr húsvíkum humlum

Samfélagsgróðurhús

„Þar sem mér finnst humlaræktun hvað mest spennandi,  er í Yakoma dalnum í Washington ríki í Bandaríkjunum og humlaræktunarsvæðin í Oregon. Við fljúgum til Portland í Oregon og skoðum humlarækrunarhéruðin rétt sunnnan við borgina. Við verðum þar í nokkra daga áður en við höldum til Washington en okkur verður lóðsað um allt ferlið af sérfræðingum ytra,“ segir Þorsteinn.

Nú er uppskerutími í gangi og segir Þorstein að þar með fái þeir tækifæri til að taka á plöntunum og sjá hvernig vinnsluferlið fer fram. „Hugmyndin er að við veljum yrki með aðstoð þessara snillinga úti, harðgert yrki sem hentar okkar aðstæðum og hugmyndum,“ segir Þorsteinn og bætir við að humlaplantan geti orðið allt að sex metrar á hæð og geti því að augljósum aðstæðum ekki verið í hvaða gróðurhúsi sem er.

„Þetta er systurplanta cannabisplöntunar, þetta er klifurjurt og lítur út eins og vínviður. Hæstu plönturnar geta orðið allt að sex metrar á hæð og gefa af sér fulla uppskeru 2-3 ára. Við munum vega og meta yrkin út frá okkar hentugleika,“ útskýrir Þorsteinn og bætir við að ferlið taki sinn tíma og það verði í fyrsta lagi eftir tvö ár að hægt verði að kaupa sér bjór á Húsavík öl úr Húsavíkur-humlum.

Þorsteinn leggur áherslu á að verkefnið sé á algeru byrjunarstigi frá sínum bæjardyrum séð. Í fyrstu verði um tilraunaræktun að ræða til að sjá hversu vel plönturnar dafna við íslenskar aðstæður. Ef allt gangi að óskum verði svo hægt að útfæra verkefnið á stærri skala. „Þá er spurning hvað verður gert. Mögulega að verða okkur úti um reit þar sem við getum ræktað okkar plöntur. Kannski nóg til að brugga nokkrar bjórtegundir. Nú eða leita að fjárfestum og gera þetta í stærra sniði. Það verður tíminn að leiða í ljós,“ segir Þorsteinn að lokum.

Samfélagsgró'urhús


Athugasemdir

Nýjast