Fyrsta óperusýningin í Hofi

Óperan La Traviata eftir Verdi verður sýnd í Menningarhúsinu Hofi 13. nóvember nk. Óperan hætti fyrir fullu húsi vorið 2019 verður tekin upp og sýnd aftur í Eldborg í haust og í Hofi helgina eftir. Samkvæmt Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni tónlistarstjóra Menningarfélags Akureyrar er þetta í fyrsta sinn sem óperusýning er flutt í Hofi.

„Hof er alvöru nútíma sviðslistahús og fullkomið fyrir flutning á óperum, ballet, söngleikjum og tónleikum af öllum stærðum og gerðum. Og í nóvember verður þar óperulist í hæsta gæðaflokki,“ er haft eftir Þorvaldi Bjarna í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar. Aðalhlutverkið verður sem fyrr sungið af Herdísi Önnu Jónassdóttir sem fékk frábæra dóma og auk þess Grímuverðlaunin sem söngvari ársins fyrir túlkun sína á hlutverki Víólettu.

Óperan fékk frábærar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda innanlands og erlendis en hún fjallar um lífsgleðina, frelsið og forboðna ást og er í þremur þáttum. Óperan var frumflutt í Feneyjum 6. mars árið 1853 og textinn sem er eftir Francesco Maria Piave er byggður á leikgerð skáldsögunnar Kamelíufrúin eftir Alexandre Dumas. Óperan hét upphaflega Violetta eftir aðalpersónunni og þykir ein sú allra fallegasta sem samin hefur verið.

Þetta mun verða í fyrsta sinn sem Íslenska óperan og Menningarfélag Akureyrar stofna til formlegs samstarfs varðandi óperuuppfærslur. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands mun sjá um hljómsveitarleik á öllum sýningunum undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar tónlistarstjóra Íslensku óperunnar. Miðasala er hafin á mak.is.

 


Athugasemdir

Nýjast