Yfirlýsing frá framkvæmdastjórn Þórs

Vegna ummæla Lárusar Orra Sigurðssonar þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu á vefmiðlinum fotbolti.net vill framkvæmdastjórn Þórs koma eftirfarandi á framfæri. Framkvæmdastjórnin harmar að umræða sem þessi skuli fara fram í fjölmiðlum og mun hlutast til með að leysa þessi mál innan félagsins.  
  • 1. Þjálfarinn segir erfitt að vinna fyrir klúbbinn þar sem aðalstjórn Þórs vinni nánast gegn þeim þ.e. meistaraflokki karla.

Það er fráleitt að halda því fram að framkvæmdastjórn félagsins vinni gegn meistaraflokki karla. Þvert á móti hefur stjórn félagsins á undanförnum árum unnið að gríðarlegri uppbyggingu á knattspyrnuaðstöðu á félagssvæðinu sem í dag er ein sú besta á landinu. Stjórn Þórs hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við allar deildir og ráð félagsins og mun gera það áfram. Allt tal um að stjórn félagsins vinni gegn meistaraflokki karla er því með öllu tilhæfulaus.

  • 2. ,,Það virðist skipta aðalstjórn meira máli að eignast vini uppá KA svæði heldur en að útvega okkur æfingaaðstöðu".

Þessi ummæli eru ekki svaraverð og dæma sig sjálf.

  • 3. Þjálfarinn segir ,,Framkvæmdastjórn Þórs tók þá ákvörðun að leyfa KA að spila á Þórsvellinum í kvöld í stað þess að leyfa okkur að æfa á vellinum"

Þessi fullyrðing er að hluta til rétt, framkvæmdastjórn Þórs tók einróma þá ákvörðun um að leikur KA og Gróttu færi fram á Þórsvellinum. Hins vegar stóð þjálfaranum til boða að æfa einu sinni á aðalvellinum í umræddri viku, þrátt fyrir að samningur Þórs, UFA og Akureyrarbæjar kveði einungis á um að hámarki klukkustundar æfingu á aðalvelli daginn fyrir heimaleik. En þar sem fyrir lá að leikur Leiknis og Þórs færi fram á gervigrasi á heimavelli Leiknis, valdi þjálfarinn að færa æfinguna inn á gervigrasið í Boganum.

  • 4. Þjálfarinn segir ,,Það síðasta sem við sáum þegar við vorum að fara af Þórssvæðinu var formaðurinn að flagga KA fánanum"

Enn og aftur eru ummælin ekki svaraverð, þjálfarinn veit betur hver síðustu samskipti formanns og liðsins voru við brottför þeirra frá Hamri.

  • 5. ,,Það var aðalfundur um daginn þar sem okkar sjónarmið (knattspyrnudeildarinnar) voru engan vegin tekin til greina. Þar var fullur salur af fólki, ja sem vissi raunverulega ekkert hvað var í gangi í Hamri"

Þetta eru merkileg ummæli í ljósi þess að þjálfarinn sat ekki umræddan aðalfund. Engin erindi komu frá knattspyrnudeild og því óljóst hvernig túlka megi ummæli þjálfarans um fólkið og fundinn almennt.

Framkvæmdastjórn Þórs harmar að umræða sem þessi skuli fara fram í fjölmiðlum og mun hlutast til með að leysa þessi mál innan félagsins.

Með félagskveðjum

Framkvæmdastjórn Íþróttafélagsins Þórs

Sigfús Ólafur Helgason formaður

Nói Björnsson

Valdimar Pálsson

Páll Jóhannesson

Vigdís Lovísa Rafnsdóttir

Nýjast