Yfir hundrað miðar á fyrsta klukkutímanum

"Við áttum von á góðum viðtökum en þetta fer fram úr björtustu vonum,” segir Fjóla Karlsdóttir markaðsfulltrúi hjá Leikfélagi Akureyrar en forsala á miðum á Rocky Horror Picture Show, sem frumsýnt verður þann 10. september hófst í morgun. Á fyrsta klukkutímanum í morgun seldust á annað hundrað miðar og muna menn ekki annað eins hjá Leikfélaginu. Fjóla segir að ekkert lát hafi verið sölunni í allan dag og allir sem vettlingi geti valdið hafi verið kvaddir til að svara í síma.

Fjóla segir að þetta sé sérstaklega ánægjulegt þar sem sala á árskortum hefjist ekki fyrr en um helgina og því sé þetta í raun sala á stökum miðum. Til viðbótar væri fólk líka að kaupa sér miða á netinu. Aðspurð hvort hún telji að miðar muni seljast upp á einhverjar sýningar nú strax fyrstu dagana taldi Fjóla það hugsanlegt en bent á að salurinn væri stærri en menn hafi átt að venjast, hann tæki um 500 manns og það skipti að sjálfsögðu máli. Hins vegar væri ekki ólíklegt að uppselt yrði fljótlega á einhverjar sýningar í september ef áfram héldi sem horfði.

Nýjast