Störfin eru hluti af sérstöku atvinnuátaki ríkisstjórnarinnar og verða auglýst í dagblöðum á morgun laugardaginn 8. maí. Opnað verður fyrir umsóknir miðvikudaginn 12. maí og umsóknarfrestur rennur út viku síðar. Stefnt er að því að ljúka ráðningum í flest störfin fyrir lok mánaðarins. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir taka þátt í átaksverkefninu og leggja til aðstöðu, efniskostnað og verkstjórn en fá stuðning til greiðslu launa. Atvinnuleysistryggingasjóður styrkir verkefnið um 250 milljónir króna og ríkisstjórnin leggur auk þess til 106 milljónir til að tryggja að hægt sé að greiða laun sem samræmast kjarasamningum sem gilda um viðkomandi störf. Að auki munu fjölmörg sveitarfélög ráða í fjölda starfa með stuðningi Vinnumálastofnunar.
Mikill skortur hefur verið á sumarstörfum vegna efnahagsástandsins og forsvarsmenn námsmanna hafa lýst miklum áhyggjum vegna þessa. Þeir Þorkell Einarsson formaður Sambands framhaldsskólanema, Jens Fjalar Skaptason, formaður Stúdentaráðs, og Sveinbjörn Fjölnir Pétursson frá samtökunum Atvinnuleysi - nei takk voru viðstaddir blaðamannafundinn til að kynna sér úrval þeirra starfa sem eru í boði.
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra:
„Þetta eru allt ný störf til
að sinna tímabundnum verkefnum, ekki hefðbundnar sumarafleysingar. Sum störfin teygjast fram á vetur. Við báðum starfsfólk
ríkisfyrirtækja og stofnana um að hugsa út fyrir kassann og segja okkur hvaða verkefni hefðu lengi staðið til, en ekki verið mannafli til að sinna.
Niðurstaðan er rúmlega áttahundruð og fimmtíu ótrúlega fjölbreytt störf, innan- og utandyra, allt í kringum landið og uppi á
hálendinu. Það er skynsamlegra að fjárfesta í verkum sem þarf að vinna frekar en að borga fólki bætur fyrir að gera ekki neitt. Mestu
máli skiptir að hér fær fjöldi fólks úr röðum atvinnulausra og námsmanna atvinnu á næstunni og verða þannig virkir
þátttakendur í samfélaginu."
Á meðal þeirra starfa sem auglýst verða eru: