Yfir 80 þúsund manns koma með skemmtiferðaskipum næsta sumar

Síðasta stóra skemmtiferðaskip sumarsins sigldi inn Eyjafjörð og til Akureyrar  í dag.  Von er svo á fjórum minni skipum á næstu dögum eða fram yfir miðjan september.  Um er að ræða rússnesk skip í einskonar ísferðum norður í höf.  

Tiltölulega fáir farþegar eru um borð í þeim skipum að sögn Péturs Ólafssonar skrifstofustjóra Hafnasamlags Norðurlands. Alls komu í sumar 55 skemmtiferðaskip til Akureyrar sem er svipaður fjöldi og í fyrra.  Tvö til þrjú skip sem boðað höfðu komu sína í sumar komu ekki m.a. vegna bilana sem upp komu.  Næsta sumar lítur vel út að sögn Péturs, þegar hafa 57 skemmtiferðaskip boðað komu sína, þau eru mörg hver stór og öflug, "þannig að farþegar eru mun fleiri en hér stöldruðu við í sumar," segir hann. 

Pétur segir að útgerðir skipanna séu um þessar mundir að skipta út minni og óhagkvæmari skipum fyrir stærri, m.a. vegna aukins olíukostnaðar.  Við þær aðstæður borgi sig að bjóða upp á stærri skip sem beri fleiri farþega.  "Ég reikna með um 30% aukningu á næsta ári miðað við nýliðið sumar þegar bornar eru saman stærðartölur skipanna, þau skip sem kom sumarið 2009 verða mun stærri að jafnaði en þau sem hér voru í sumar sem leið," segir Pétur.  Hann giskar á að innanborðs verði um 56 þúsund farþegar og 27 þúsund áhafnarmeðlimir eða vel yfir 80 þúsund manns. "Við höfum tekið þátt í markaðsátaki, látum reglulega vita af okkur og hvað Norðurland hefur upp á að bjóða.  Ég vona að það hafi skilað árangri," segir Pétur.

Nýjast